Innlent

Almannavarnir vara við bandbrjáluðu veðri

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ekkert ferðaveður verður um helgina.
Ekkert ferðaveður verður um helgina. Vísir/Auðunn
Veðurstofan og Almannavarnir varar við illviðri í nótt og á morgun. Í nótt verður versta veðrið á Vestfjörðum, um 18-23 metrar á sekúndu, sem síðar færist suður með Vesturlandi og austur með Norðurlandi. Þetta kemur fram í aðvörun sem Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér.

Veðrinu um helgina fylgir talsverð snjókoma, einkum norðaustan- og austanlands. Veðurstofan og Almannavarnir segja að skyggni verði nánast ekkert og því útilokað að ferðast. Búast má við að vegir verði ófærir á mjög skömmum tíma.

Í fyrramálið er því að spáð að það hvessi talsvert á austurhelmingi landsins, meira en það sem verður í nótt, og má búast við hviðum allt upp í 50 metra á sekúndu. Meðalvindur verður á bilinu 23-32 metrar á sekúndu. Í spánni segir að þar sem vindáttin er af norðri og norðvestri megi reikna með að vindhviðurnar verði hvað sterkastar á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×