Ævikvöldið sem ég óskaði mér? Sara McMahon skrifar 21. janúar 2014 06:00 Dagurinn sem ég uppgötvaði mitt fyrsta gráa hár er mér enn í fersku minni. Það var haustið 2008 og ég var stödd inni á salerni á Þjóðarbókhlöðunni. Í miðjum handþvotti tók ég eftir einu hári sem stakk í stúf við hin. Til að vera alveg viss í minni sök kippti ég hárinu úr höfðinu og við nánari skoðun varð mér ljóst að ekki var um að villast, hárið var silfurgrátt að lit. Þetta var tilfinningaþrungin stund því ég vissi sem var; nú var ég loks komin í fullorðinna manna tölu. Síðan þá hefur gráu hárunum fjölgað talsvert, eðli málsins samkvæmt. Þrátt fyrir að taka gránandi kolli af nokkru æðruleysi, slæddust inn nokkrir dagar þar sem mér þótti þessi þróun heldur yfirþyrmandi. En það var enga samúð að fá, hvorki hjá ættingjum né vinum og sér í lagi ekki hjá móður minni sem benti mér á að mér bæri að taka hækkandi aldri fagnandi, nýtt ár þýddi að ég væri enn á lífi til að njóta alls þess sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Og hún hefur vissulega lög að mæla. Það að fullorðnast er því ekkert til að hræðast. En eitt hefur mér þó ekki tekist að hrista af mér; hina nagandi tilhugsun að einn góðan veðurdag verði ég of gömul til að sinna daglegum störfum hjálparlaust. Amma mín dvaldi síðustu ár ævi sinnar á hjúkrunarheimili og íbúar þess sátu sumir aðgerðarlausir inni í herbergjum sínum heilu dagana án nokkurs konar örvunar. Blessunarlega átti amma mín aðstandendur sem heimsóttu hana daglega og voru tilbúnir að taka fyrir hana slaginn þegar þess þurfti. Fyrir helgi fluttu fjölmiðlar fréttir af því að vegna niðurskurðar á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði sé þjónusta við íbúa heimilisins nú ófullnægjandi. Sökum manneklu liggur heimilisfólkið stundum í rúmi sínu fram eftir degi án þess að nokkur skipti sér af því. Öll eldumst við, þó sumir nái hærri aldri en aðrir, og því ber að spyrja: er þetta ævikvöldið sem við óskum okkur? Sé spurningunni svarað neitandi getur ekki verið rétt að aldraðir ástvinir búi í dag við aðstæður sem okkur þykir sjálfum óviðunandi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sara McMahon Mest lesið Bakslag í skoðanafrelsi? Kári Allansson Skoðun Hataðu mig af því að ég er í Viðreisn, ekki af því að ég er hommi Oddgeir Georgsson Skoðun Þegar skoðanir drepa samtalið Þórdís Hólm Filipsdóttir Skoðun Þreytt og drullug börn Guðmundur Finnbogason Skoðun Leysum heimatilbúinn vanda á húsnæðismarkaði Jóhanna Klara Stefánsdóttir Skoðun Útgerðin skuldar okkur skýringar Guðmundur Helgi Þórarinsson Skoðun Fyrirhugað böl við Bústaðaveg og Blesugróf Sveinn Þórhallsson Skoðun Við þurfum að tala saman Páll Rafnar Þorsteinsson Skoðun Margföldun þjóðarverðmæta: Meira virði úr sömu orku Árni Sigurðsson Skoðun Fjölbreytt námsmat Steinn Jóhannsson Skoðun
Dagurinn sem ég uppgötvaði mitt fyrsta gráa hár er mér enn í fersku minni. Það var haustið 2008 og ég var stödd inni á salerni á Þjóðarbókhlöðunni. Í miðjum handþvotti tók ég eftir einu hári sem stakk í stúf við hin. Til að vera alveg viss í minni sök kippti ég hárinu úr höfðinu og við nánari skoðun varð mér ljóst að ekki var um að villast, hárið var silfurgrátt að lit. Þetta var tilfinningaþrungin stund því ég vissi sem var; nú var ég loks komin í fullorðinna manna tölu. Síðan þá hefur gráu hárunum fjölgað talsvert, eðli málsins samkvæmt. Þrátt fyrir að taka gránandi kolli af nokkru æðruleysi, slæddust inn nokkrir dagar þar sem mér þótti þessi þróun heldur yfirþyrmandi. En það var enga samúð að fá, hvorki hjá ættingjum né vinum og sér í lagi ekki hjá móður minni sem benti mér á að mér bæri að taka hækkandi aldri fagnandi, nýtt ár þýddi að ég væri enn á lífi til að njóta alls þess sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Og hún hefur vissulega lög að mæla. Það að fullorðnast er því ekkert til að hræðast. En eitt hefur mér þó ekki tekist að hrista af mér; hina nagandi tilhugsun að einn góðan veðurdag verði ég of gömul til að sinna daglegum störfum hjálparlaust. Amma mín dvaldi síðustu ár ævi sinnar á hjúkrunarheimili og íbúar þess sátu sumir aðgerðarlausir inni í herbergjum sínum heilu dagana án nokkurs konar örvunar. Blessunarlega átti amma mín aðstandendur sem heimsóttu hana daglega og voru tilbúnir að taka fyrir hana slaginn þegar þess þurfti. Fyrir helgi fluttu fjölmiðlar fréttir af því að vegna niðurskurðar á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði sé þjónusta við íbúa heimilisins nú ófullnægjandi. Sökum manneklu liggur heimilisfólkið stundum í rúmi sínu fram eftir degi án þess að nokkur skipti sér af því. Öll eldumst við, þó sumir nái hærri aldri en aðrir, og því ber að spyrja: er þetta ævikvöldið sem við óskum okkur? Sé spurningunni svarað neitandi getur ekki verið rétt að aldraðir ástvinir búi í dag við aðstæður sem okkur þykir sjálfum óviðunandi.