Handbolti

Olís deild karla af stað í kvöld eftir 53 daga hlé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrekur Jóhannesson stýrði Austurríksmönnum á EM í Danmörku.
Patrekur Jóhannesson stýrði Austurríksmönnum á EM í Danmörku. Vísir/Daníel
Olís-deild karla í handbolta fer aftur af stað í kvöld eftir 53 daga hlé en það hefur ekkert verið spilað í deildinni síðan 8. desember vegna þátttöku íslenska handboltalandsliðsins á EM í Danmörku.

Haukarnir voru á miklu skriði þegar deildin fór í frí, búnir að vinna þrjá leiki í röð og komnir með fjögurra stiga forskot á toppnum.

Haukar heimsækja ÍR-inga í Austurbergið klukkan 20.00 í kvöld en ÍR-ingar töpuðu fjórum af fimm síðustu leikjum sínum fyrir frí. Bjarki Sigurðsson hefur örugglega farið vel yfir hlutina með lærisveinum sínum í EM-fríinu.

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, eyddi hins vegar stærstum hluta frísins í að stýra austurríska landsliðinu á Evrópumótinu í Danmörku.

Akureyrarliðið vann tvo síðustu leiki sína fyrir frí og tekur á móti Val á heimavelli í Höllinni á Akureyri klukkan 19.00 í kvöld.

Valsmenn eru einu stigi frá sæti í úrslitakeppninni en unnu aðeins einn af síðustu fjórum leikjum sínum fyrir frí.

Þriðji leikur kvöldsins er á milli Fram og FH í Safamýrinni en hann hefst klukkan 19.30.

FH vann sextán marka sigur í fyrri leiknum og Framarar hafa örugglega lengi stefnt að því að hefna fyrir þann skell.

FH tapaði tveimur síðustu leikjum sínum fyrir fríið og misstu með því Haukaliðið fram úr sér í baráttunni um toppsætið deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×