Handbolti

Pressan frá bæjarbúum gríðarlega mikil

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur getur farið í sterkari deild eða verið áfram í Svíþjóð.
Ólafur getur farið í sterkari deild eða verið áfram í Svíþjóð. Fréttablaðið/Daníel
„Framtíðin er óráðin ennþá en ég vona mín mál klárist á næstu dögum,“ segir Ólafur Guðmundsson, landsliðsmaður í handbolta, við Fréttablaðið en hafnfirska stórskyttan sem sló svo rækilega í gegn á EM á enn eftir að ákveða hvar hann spilar á næsta tímabili.

Hann er meðal markahæstu manna í sænsku úrvalsdeildinni og lét rækilega vita af sér á EM í Danmörku þannig lið í Þýskalandi hafa borið víurnar í hann.

„Ég hef tvo valkosti. Ég get farið til Þýskaland eða verið áfram í Svíþjóð. Ef ég fer vil ég taka skrefið í sterkari deild eins og Þýskaland. En það kemur líka til greina að vera áfram hjá Kristianstad. Hér líður mér mjög vel. Ég er að spila frábærlega í frábæru liði þar sem er frábær umgjörð og allt eins og það á að vera,“ segir Ólafur sem ber mikið lof á lið sitt Kristianstad og ekki síður stuðningsmenn þess.

„Hérna eru 5.000 manns á hverjum leik, þjálfarinn frábær og við erum í Evrópukeppni. Stemningin á heimaleikjum er engu lík. Það eru ekki margir staðir í heiminum sem bjóða upp á svona handbolta. Það er uppselt á alla heimaleiki og rosalega mikill áhugi í bænum. Það er alveg svakalega gaman að spila við svona aðstæður,“ segir Ólafur.

Kristianstad er efst í deildinni með 37 stig eftir 23 leiki. Það er með þriggja stiga forskot á Alingsås og á leik til góða þegar liðin eiga tvo til þrjá leiki eftir. Hann viðurkennir að pressa á að vinna sænska meistaratitilinn sé mikil núna eftir ófarir undanfarinna ára.

„Við erum búnir að fá silfur tvö ár í röð þannig það er pressa frá fólkinu að vinna þetta núna. Bærinn verður líka 400 ára sama dag og úrslitaleikurinn á að fara fram þannig pressan að komast í úrslitaleikinn er mikil. Maður vonar bara að það gangi eftir hjá okkur,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×