Húsvernd fyrir heimakjördæmið Ólafur Þ. Stephensen skrifar 28. febrúar 2014 07:00 Sveinn Arason ríkisendurskoðandi skammaði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hér í blaðinu í gær fyrir það hvernig staðið er að fjármögnun áhugamáls ráðherrans, eflingu húsverndar. Flestir ættu raunar að geta skrifað upp á að varðveizla menningararfsins sem felst í gömlum húsum sé hið bezta mál og gott að æðsti maður framkvæmdavaldsins beiti sér fyrir því. En ríkisendurskoðandi er ekki einn um að gagnrýna hvernig að húsverndarstyrkjunum er staðið. Úthlutun forsætisráðuneytisins var gerð opinber fyrr í mánuðinum. Ráðuneytið hafði til ráðstöfunar 205 milljónir króna, sem fóru til 24 verkefna. Stjórn Félags fornleifafræðinga sendi forsætisráðuneytinu þegar í stað bréf, þar sem úthlutunin var harðlega gagnrýnd. Bent var á að þessir fjármunir væru heldur meiri en eru til ráðstöfunar samanlagt í þremur faglegum samkeppnissjóðum, húsafriðunarsjóði, fornminjasjóði og safnasjóði. Verkefnin hefðu flest eða öll getað fallið innan kerfis þessara sjóða, „þar sem gerð er krafa um faglegan rökstuðning, vönduð vinnubrögð og skýrar fjárhags- og verkáætlanir,“ stóð í bréfi fornleifafræðinganna. Þeir segja óljóst hvernig staðið var að faglegu mati á því hvert styrkirnir ættu að fara. Landfræðileg dreifing styrkjanna gefur hugsanlega einhverja vísbendingu um það. Meirihlutinn, eða 111 milljónir króna (ekki 97 eins og áður hefur komið fram), fór til tólf verkefna í Norðausturkjördæmi, kjördæmi forsætisráðherra. Í sex verkefni í Suðurkjördæmi fóru 55 milljónir og í fimm verkefni í Norðvesturkjördæmi 37 milljónir. Ekkert verkefni í Suðvesturkjördæmi verðskuldaði styrk samkvæmt faglegu mati ráðuneytisins og Reykjavíkurkjördæmin tvö fengu tvær milljónir í eitt verkefni sem er sérstakt áhugamál forsætisráðherra, verndarsvæði í miðbæ Reykjavíkur. Við fyrstu sýn virðist þetta vera gamla faglega framsóknaraðferðin; að smyrja skattfénu sæmilega jafnt um landsbyggðina, en mestu þó í kjördæmi viðkomandi framsóknarráðherra. Í fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur alþingismanns til forsætisráðherra var spurt hver væri stefnumótun ráðuneytisins um úthlutun fjár í þessi verkefni. Svarið var að það væri verið að vinna í henni. Brynhildur spurði líka hvaða skriflegu verklagsreglur væru til um styrkúthlutunina. Svarið var að þær væru í vinnslu. Í svarinu kom fram að styrkirnir hefðu ekki verið auglýstir. Spurningu um hvernig jafnræðisreglur væru tryggðar var ekki svarað. Þetta finnst ríkisendurskoðanda ekki góð latína og finnst að allir eigi að sitja við sama borð og eiga rétt á að sækja um styrkina. Svo eigi fagnefnd að raða umsóknunum í forgangsröð. „Öll frávik frá svona regluverki erum við mjög ósáttir við,“ segir Sveinn Arason. Aðstoðarmenn forsætisráðherra malda í móinn í Fréttablaðinu í dag; segja að verklagið sé tekið í arf frá fyrri stjórnvöldum, að peningarnir séu ekki sjóður með sama hætti og samkeppnissjóðirnir og þar fram eftir götunum. Og það getur allt verið rétt. En væri það ekki betri meðferð skattfjár að úthluta þessum peningum með sama hætti og öðrum styrkjum til húsverndar, safna og varðveizlu fornminja? Kæmi það niður á varðveizlu menningararfsins? Eða kæmi það aðallega niður á tækifærum stjórnmálamanna til að ráðstafa skattpeningum í þágu kjördæmishagsmuna? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi skammaði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hér í blaðinu í gær fyrir það hvernig staðið er að fjármögnun áhugamáls ráðherrans, eflingu húsverndar. Flestir ættu raunar að geta skrifað upp á að varðveizla menningararfsins sem felst í gömlum húsum sé hið bezta mál og gott að æðsti maður framkvæmdavaldsins beiti sér fyrir því. En ríkisendurskoðandi er ekki einn um að gagnrýna hvernig að húsverndarstyrkjunum er staðið. Úthlutun forsætisráðuneytisins var gerð opinber fyrr í mánuðinum. Ráðuneytið hafði til ráðstöfunar 205 milljónir króna, sem fóru til 24 verkefna. Stjórn Félags fornleifafræðinga sendi forsætisráðuneytinu þegar í stað bréf, þar sem úthlutunin var harðlega gagnrýnd. Bent var á að þessir fjármunir væru heldur meiri en eru til ráðstöfunar samanlagt í þremur faglegum samkeppnissjóðum, húsafriðunarsjóði, fornminjasjóði og safnasjóði. Verkefnin hefðu flest eða öll getað fallið innan kerfis þessara sjóða, „þar sem gerð er krafa um faglegan rökstuðning, vönduð vinnubrögð og skýrar fjárhags- og verkáætlanir,“ stóð í bréfi fornleifafræðinganna. Þeir segja óljóst hvernig staðið var að faglegu mati á því hvert styrkirnir ættu að fara. Landfræðileg dreifing styrkjanna gefur hugsanlega einhverja vísbendingu um það. Meirihlutinn, eða 111 milljónir króna (ekki 97 eins og áður hefur komið fram), fór til tólf verkefna í Norðausturkjördæmi, kjördæmi forsætisráðherra. Í sex verkefni í Suðurkjördæmi fóru 55 milljónir og í fimm verkefni í Norðvesturkjördæmi 37 milljónir. Ekkert verkefni í Suðvesturkjördæmi verðskuldaði styrk samkvæmt faglegu mati ráðuneytisins og Reykjavíkurkjördæmin tvö fengu tvær milljónir í eitt verkefni sem er sérstakt áhugamál forsætisráðherra, verndarsvæði í miðbæ Reykjavíkur. Við fyrstu sýn virðist þetta vera gamla faglega framsóknaraðferðin; að smyrja skattfénu sæmilega jafnt um landsbyggðina, en mestu þó í kjördæmi viðkomandi framsóknarráðherra. Í fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur alþingismanns til forsætisráðherra var spurt hver væri stefnumótun ráðuneytisins um úthlutun fjár í þessi verkefni. Svarið var að það væri verið að vinna í henni. Brynhildur spurði líka hvaða skriflegu verklagsreglur væru til um styrkúthlutunina. Svarið var að þær væru í vinnslu. Í svarinu kom fram að styrkirnir hefðu ekki verið auglýstir. Spurningu um hvernig jafnræðisreglur væru tryggðar var ekki svarað. Þetta finnst ríkisendurskoðanda ekki góð latína og finnst að allir eigi að sitja við sama borð og eiga rétt á að sækja um styrkina. Svo eigi fagnefnd að raða umsóknunum í forgangsröð. „Öll frávik frá svona regluverki erum við mjög ósáttir við,“ segir Sveinn Arason. Aðstoðarmenn forsætisráðherra malda í móinn í Fréttablaðinu í dag; segja að verklagið sé tekið í arf frá fyrri stjórnvöldum, að peningarnir séu ekki sjóður með sama hætti og samkeppnissjóðirnir og þar fram eftir götunum. Og það getur allt verið rétt. En væri það ekki betri meðferð skattfjár að úthluta þessum peningum með sama hætti og öðrum styrkjum til húsverndar, safna og varðveizlu fornminja? Kæmi það niður á varðveizlu menningararfsins? Eða kæmi það aðallega niður á tækifærum stjórnmálamanna til að ráðstafa skattpeningum í þágu kjördæmishagsmuna?