Handbolti

Ársfrí eftir krossbandsslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fastur á sínu. Þórir Hergeirsson vill passa upp á þá leikmenn sem hafa lent í slæmum meiðslum.
Fastur á sínu. Þórir Hergeirsson vill passa upp á þá leikmenn sem hafa lent í slæmum meiðslum. fréttablaðið/AFP
Þórir Hergeirsson hefur innleitt þá reglu í norska kvennalandsliðið að leikmönnum er nú bannað að spila með landsliðinu í slétt ár verði þeir fyrir því óláni að slíta krossband í hné.

Nýja reglan þýðir að hin 23 ára Mari Molid muni missa af EM í desember næstkomandi en hún varð nýverið fyrir meiðslunu. Yfirleitt tekur leikmenn 9-12 mánuði að jafna sig á þeim meiðslum en gangi endurhæfingin hjá Molid vel getur vel verið að hún verði komin af stað með félagi sínu, Larvik, í haust.

„Landsliðið er aukaálag til viðbótar við það sem leikmenn gera með sínum félagsliðum. Það getur vel verið að Mari gangi allt í haginn hjá hennar liði en það er krefjandi að spila með landsliðinu sem æfir oft tvisvar á dag. Við viljum hlífa henni við því,“ sagði Anne Froholdt, sjúkraþjálfari landsliðsins, við norska fjölmiðla í gær.

Reglan var tekin upp innan landsliðsins í síðasta mánuði en Froholdt lýsti yfir ánægju sinni með breytinguna.

„Þórir hefur verið drifkrafturinn í þessu máli og mér finnst það frábært. Við setjum heilsu leikmanna í fyrsta sæti enda er alltaf hætt við því að meiðsli geti tekið sig upp á nýjan leik.“

Noregur mætir Hvíta-Rússlandi í undankeppni EM 2014 í dag og getur tryggt sér sæti í lokakeppninni, fyrst allra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×