Körfubolti

And(y)laus endasprettur í Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andry Johnston.
Andry Johnston.
Bandaríski þjálfarinn Andy Johnston kom eins og stormsveipur inn í íslenska körfuboltann síðasta haust þegar hann tók við karla- og kvennaliði Keflavíkur sem byrjuðu bæði tímabilið af miklum myndarskap. Endirinn var hins vegar sögulega slakur því hvorugu liðinu tókst að vinna einn leik í úrslitakeppninni og fóru því bæði snemma í sumarfrí.

Þetta er í fyrsta sinn frá því að úrslitakeppni kvenna var sett á laggirnar árið 1993 sem Keflvíkingar vinna ekki einn leik í úrslitakeppni karla og kvenna. Karlarnir voru búnir að vinna leik í úrslitakeppninni 2009 (2-0 gegn Njarðvík í 8-liða úrslitum) þegar báðum liðunum var sópað út úr undanúrslitunum.

Það er þó ekki eins og Keflavíkurliðin hafi farið á taugum í úrslitakeppninni því veikleikamerkin voru farin að líta dagsins ljós fyrir þann tíma og endasprettur beggja liða í deildarkeppninni var ekki sannfærandi. Karlaliðið tapaði meðal annars þremur leikjum í röð og konurnar unnu aðeins einn af fimm deildar- og bikarleikjum í febrúarmánuði.

Hér fyrir neðan má sjá þessa þróun svart á hvítu þar sem sigurhlutfall Keflavíkurliðanna er skoðað eftir mánuðum á tímabilinu 2013-14.

Hvort Andy Johnston fái að taka upp prófin næsta vetur og uppfylla tveggja ára samning sinn á eftir að koma í ljós. Hann gerði tveggja ára samning en Keflvíkingar sýna af sér mikla þolinmæði ákveði þeir að gefa honum annað tækifæri næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×