Innlent

Segir Vigdísi fara með rangt mál

Páll Matthíasson.
Páll Matthíasson.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir Vigdísi Hauksdóttur formann fjárlaganefndar Alþingis fara með fleipur þegar hún haldi því fram að framlög til sjúkrahússins hafi numið 10 milljörðum með fjárlögum ársins 2014 og frumvarpi til ársins 2015. Þar með hefði niðurskurður verið jafnaður.

Þetta kemur fram í forstjórapistli sem Páll ritar á vef Landspítalans í gær. Í honum vitnar Páll í ummæli sem Vigdís lét falla í gærmorgun á Bylgjunni. Páll segir að ef jafna hefði átt hallann hefðu framlög til sjúkrahússins orðið að nema 16 milljörðum króna á tímabilinu. Framlögin þessi tvö ár hafi hins vegar numið 6,3 milljörðum króna.

„Þetta fer nokkuð fjarri þeim tíu milljörðum sem formaðurinn nefndi,“ segir forstjórinn og heldur áfram. „Staðreyndin er sú að í ár fær Landspítali um 10 prósent minna fé til reksturs en hann fékk árið 2008 miðað við fast verðlag.“

Að sögn Páls hefur síðan þá ekki einungis verið hagrætt gríðarlega í starfseminni, eins og formaður fjárlaganefndar bendir réttilega á heldur hafi einnig verið bætt við fjölmörgum nýjum verkefnum. Þar tiltekur forstjórinn sérstaklega þjónustu við eldri borgara.- jme




Fleiri fréttir

Sjá meira


×