Lífið

Bíður jólabókin á skiptimarkaði?

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Mögulega leynist jólaflíkin á skiptimarkaðnum.
Mögulega leynist jólaflíkin á skiptimarkaðnum. Mynd/AnítaEldjárn
Næstkomandi miðvikudag verður haldinn skiptimarkaður á Lofti hosteli í Bankastræti.

Hann er opinn öllum og er fólk hvatt til þess að koma með föt, bækur eða aðra hluti sem ekki koma þeim að notum en nýst gætu öðrum.

„Þetta hefur verið gert frá opnun hostelsins og gengið betur og betur eftir því sem fleiri vita af þessu,“ segir Aníta Eldjárn Kristjánsdóttir, viðburðastjóri Lofts hostels.

Á markaðnum kennir ýmissa grasa. „Þetta eru ekki bara föt heldur líka bækur eða bara eitthvert dót sem fólk heldur að gæti nýst öðrum,“ segir hún og bætir við að fólki sé frjálst að koma með hvað sem er svo lengi sem það sé í nothæfu ástandi.

„Þetta er kjörið tækifæri fyrir fólk að finna bókina til þess að lesa um jólin eða jafnvel ef það vantar eitthvað í jóladressið.“

Skiptimarkaðurinn er skipulagður af sjálfboðaliðum frá European Voluntary Service. „Hjá okkur koma þeir og hjálpa okkur að halda vinnustaðnum grænum. Þeir taka alla starfsmenn í „green training“ og sjá til þess að allir á vinnustaðnum séu meðvitaðir um náttúruna. Við erum með Svansvottun og þá gilda ákveðnar reglur um flokkun á rusli og svona.“

Skiptimarkaðurinn hefst klukkan fjögur á miðvikudaginn næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×