Innlent

Múslimarnir okkar: „Lærðu að segja As-salamu alaykum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gústaf Níelsson, Margrét Friðriksdóttir, Soumia Islami, Helgi Hrafn Gunnarsson og Salmann Tamimi tóku þátt í umræðunum.
Gústaf Níelsson, Margrét Friðriksdóttir, Soumia Islami, Helgi Hrafn Gunnarsson og Salmann Tamimi tóku þátt í umræðunum.
Helgi Hrafn Gunnarsson, Salmann Tamimi, Soumia Islami, Margrét Friðriksdóttir og Gústaf Níelsson tóku þátt í umræðum hjá Lóu Pind Aldísardóttur í tengslum við þáttinn Múslimarnir okkar.

Óhætt er að segja að umræðurnar hafi verið líflegar og var meðal annars rætt um byggingu mosku á Íslandi, Pegida-samtökin og meinta íslamsvæðingu Evrópu.

Þá velti Lóa Pind því upp hvað væri hægt að gera til að mæta þeim ótta sem virðist búa í brjósti Íslendinga gagnvart múslimum.

„Ég held satt best að segja að það sé verið að yfirgera þennan ótta, óttinn er ekki neitt sérstakur. Ég held að flestir Íslendingar spyrji sig hvaða erindi á íslam við þetta litla friðsæla samfélag. Ég hugsa að flestum þyki þetta eins og óboðinn gestur,“ sagði Gústaf.

Þá minntist Margrét á sjaría-lög:

„Það sem ég óttast við íslam eru þessi sjaría-lög. Mér finnst þau stórhættuleg, þau stangast á við íslenskt samfélag, íslensk lög.“

Soumia Islami sagði sömu lög og reglur gilda fyrir alla á Íslandi.

„Það er trúfrelsi fyrir alla og trú á ekki að koma nálægt lögum og reglum á Íslandi. Ég vil hafa kristið fólk í kringum mig og ég vil ekki að íslam taki yfir eða neitt slíkt. En múslimar á Íslandi eiga að hafa sömu réttindi og allir aðrir“

Helgi Hrafn sagði múslima ekki vera að ná völdum.

„Það eru þrír sjálfkallaðir nýfasistar á Evrópuþinginu. Núll íslamistar. Það komust tveir menn inn í borgarstjórn núna í síðustu kosningum út á þetta moskumál. Núll íslamistar. Múslimar eru ekki að ná völdum, sjaría er ekki á leiðinni. Við þurfum að óttast hægrisinnaðan þjóðernishroka sem er rísandi hér eins og annars staðar í Evrópu. Varðandi það hvernig við getum unnið bug á óttanum við múslima, lærðu að heilsa þeim. Lærðu að segja As-salamu alaykum.“

„Við erum partur af samfélaginu.  Það er bara lágkúrulegt að við séum á 21. öldinni og enn að hugsa eins og við séum á 18. öld. „Þetta erum við og þetta eru þið.“ Tölum um hvað múslimar eru að gera á Íslandi,“ sagði Salmann Tamimi.

Umræðuþáttinn í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

„Vill hann láta afhausa sig?“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók þátt í "Einn á móti öllum“ í Bítinu í morgun þar sem rætt var um innflytjendamál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×