Innlent

Öryggismál ofarlega á baugi á fundi Sigmundar og Stoltenberg

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigmundur og Jens á fundinum í dag.
Sigmundur og Jens á fundinum í dag. vísir/valli
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, funduðu í hádeginu en Stoltenberg er staddur hér á landi í fyrstu heimsókn sinni í embætti framkvæmdastjóra.

Á fundinum voru öryggismál í Evrópu ofarlega á baugi, þ.m.t. staða mála í Úkraínu og samskiptin við Rússland. Rætt var um aukinn varnarviðbúnað bandalagsins í Evrópu og undirbúning fyrir leiðtogafund bandalagsins í Varsjá á næsta ári.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að Sigmundur hafi áréttað á fundinum þær skuldbindingar Íslands um aukin framlög til bandalagsins.

Ógn af hryðjuverkum var ennfremur til umræðu á fundinum, sem og málefni Afganistan en Atlantshafsbandalagið stendur nú að þjálfunaraðgerð í landinu eftir að aðgerðum alþjóðaliðsins, ISAF, lauk um síðustu áramót.

Rætt var um aukinn varnarviðbúnað bandalagsins í Evrópu og undirbúning fyrir leiðtogafund bandalagsins í Varsjá.vísir/valli
Þá voru öryggismál á norðurslóðum rædd og loftrýmisgæsla bandalagsins hér á landi sem þykir hafa heppnast vel. Að síðustu voru netöryggismál til umræðu sem og málefni ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi sem Ísland hefur stutt við.

Að loknum fundi með forsætisráðherra hélt framkvæmdastjóri til fundar við utanríkisráðherra. Stoltenberg mun ennfremur eiga fundi með forseta Alþingis og utanríkismálanefnd þingsins, og einnig hitta innanríkisráðherra um borð í varðskipinu Þór.

Heimsókn framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins til Íslands lýkur í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×