Ágústa Eva sagði karakterinn Silvíu Nótt hafa þróast á annan veg en áætlað var. Ekki hafi verið gert ráð fyrir að hún yrði svo vinsæl hjá yngri kynslóðinni. Þá hafi allt breyst og því hún og Gaukur Úlfasson, skaparar Silvíu Nætur, þurft að grípa til ráðstafanna. „Við reyndum að gera í því að gera hana að enn meiri norn,“ sagði Gaukur í þættinum.
Sjá einnig: Snýr baki við Silvíu nótt: „Dropinn sem fyllti mælinn“

„Þetta var hrikalegt sko. Við urðum að senda skýr skilaboð um að þetta væri ekki barnaefni, hvað þá einhvers konar fyrirmynd. Silvía var eiginlega bara samansafn af samfélagslegum meinum í samfélaginu okkar á þessum tíma. Hún var bara samnefnari yfir allt sem er slæmt,“ sagði Ágústa.
Hlusta má á viðtalið við Ágústu Evu og Gauk í spilaranum hér fyrir ofan. Í þættinum segja þau meðal annars frá því að fyrirkomulagi Eurovision hafi verið breytt vegna framkomu Silvíu Nætur í keppninni. Þá ræða þau það þegar lagi þeirra var lekið áður en það var kynnt fyrir landsmönnum árið 2006 og segjast fullviss um að Ísland vinni Eurovision í ár.
Eurovísir er nýtt vikulegt hlaðvarp á Vísi þar sem hitað verður upp fyrir Eurovision sem fram fer í Vínarborg í maí. Umsjónarmenn þáttarins eru Aðalsteinn Kjartansson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir.