Körfubolti

Toronto á útleið í úrslitakeppninni | Myndbönd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Pierce og félagar eru í góðum málum í úrslitakeppninni.
Paul Pierce og félagar eru í góðum málum í úrslitakeppninni. Vísir/Getty
Toronto er í slæmum málum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar eftir annað tap á heimavelli fyrir Washington.

Washington vann sannfærandi sigur í Kanada í nótt, 117-106, og komst þar með í 2-0 forystu í einvíginu. Liðið á þar að auki næstu tvo leiki á heimavelli og getur því klárað einvígið þar.

Þetta eru liðin sem enduðu í 4. og 5. sæti austurdeildarinnar en Washigton er eina liðið sem hefur unnið útileik í úrslitakeppninni til þessa.

John Wall skoraði 26 stig og gaf sautján stoðsendingar þar að auki. Bradle Beal var þó stigahæstur með 28 stig.

DeMar DeRozen og Lou Williams voru með 20 stig hvor fyrir Toronto sem hefur aðeins unnið eina rimmu í úrslitakeppni í síðustu sex skipti sem liðið hefur komist þangað.

Cleveland er komið í 2-0 forystu gegn Boston eftir sigur á heimavelli í nótt, 99-91.

LeBron James skoraði 30 stig fyrir Cleveland, þar af fimmtán í fjórða leikhluta er heimamenn náðu loks að hrista lið Boston af sér. Kyrie Irving kom næstur með 26 stig.

James og Irving skoruðu öll stig Cleveland í fjórða leikhluta og síðustu 28 stig sinna manna í leiknum.

Hjá Boston var Isaiah Thomas stigahæstur með 22 stig en gestirnir héldu sér lengi vel inni í leiknum, ekki síst með góðu framlagi frá bekknum en varamenn Boston skoruðu alls 51 stig í nótt.

Houston vann Dallas, 111-99, þar sem þeir James Harden og Dwight Howard fóru mikinn í liði heimamanna sem hafa nú 2-0 forystu í rimmunni.

Mestu munaði um 11-0 sprett Houston í fjórða leikhluta þar sem Howard skoraði til að mynda þrjár „alley-oop“ körfur, allar eftir sendingar Josh Smith.

Howard var með 28 stig í leiknum en Harden kom næstur með 24 stig.

Monta Ellis skoraði 24 stig fyrir Dallas en stóru mennirnir þeirra, Dirk Nowitzky og Tyson Chandler, töpuðu baráttunni gegn Howard og félögum og voru samanlagt með aðeins 21 stig.

Úrslit næturinnar:

Cleveland - Boston 99-91 (2-0)

Toronto - Washington 106-117 (0-2)

Houston - Dallas 111-99 (2-0)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×