Innlent

Ósammála um hvort Hanna Birna hafi sagt þinginu ósatt

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins brást í máli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að mati Ögmundar Jónassonar formanns nefndarinnar. Hún fór í pólitískar skotgrafir en meiningin er að hún sé hafin yfir slíkt. Nefndin klofnaði í málinu, en aðallega var deilt um hvort Hanna Birna hefði sagt þinginu ósatt eða ekki. Stjórnarliðar mynduðu meirihluta og telja að málinu hafi lokið með skýrslu umboðsmanns Alþingis.

Brynjar Níelsson varaformaður nefndarinnar segir að nefndin eigi ekki að setja sig í dómarasæti eða starfa sem rannsóknarréttur. Til þess hafi hún embætti eins og umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Hann hafnar því að nefndarmenn hafi farið í pólitískar skotgrafir þótt þeir hafi ekki talið eða treyst sér til að fullyrða það að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi sagt ósatt í þinginu.

Til stóð að afgreiða skýrslu í nafni allrar nefndarinnar en stjórnarliðar féllust ekki á það svo minnihlutinn stendur einn að skýrslunni eða álitinu. Ögmundur Jónasson segir þetta mjög dapurlega niðurstöðu en það sé nauðsynlegt að álit minnihlutans verði rætt í þinginu. Hann segist líta málið mjög alvarlegum augum en hafi ekki tekið neina ákvörðun um hvort hann hætti sem formaður í nefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×