Keppendur hinna Norðurlandanna fluttu að sjálfsögðu sín lög líka en Felix Bergsson segir Maríu hafa verið langbesta í partýinu. Hann kom í viðtal í Bítið í morgun. Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Sjá einnig: Viðtal við Maríu eftir rauða dregilinn
Þrjú lönd langefst
„Það eru flestir sammála um að Svíar, Ástralir eða Ítalir muni vinna en Ísland, Rússland, Noregur og Eistland eru nefnd í humátt þar á eftir.
María var langbest í Norðurlanda partýinu en ég held að það verði eitthvert þessara þriggja landa sem muni bera sigur úr býtum,“ sagði Felix.
María söng Unbroken fyrir gesti í Norðurlandateitinu en eins og heyra má á myndbandinu hér að neðan þekkti hópurinn lagið og tók undir með Maríu. Það þekktu síðan að sjálfsögðu allir Euphoria sem söngkonan Loreen kom, sá og sigraði með árið 2012.
Hann telur að Ísland eigi mjög góða möguleika á því að enda í einu af efstu tíu sætunum. Hann bendir á að það sé mjög langt síðan Ísland hafi verið í einu af tíu efstu sætunum hjá veðbönkum.
Eins og staðan er núna virðist Ísland vera einmitt í því tíunda, í það minnsta á vefsíðu Eurovision World.
Hreyfing hefur verið á veðbönkunum síðastliðna viku en Frakkland rauk upp listann eftir æfingu þeirra í gær og Rússland þaut upp í efstu fimm sætin eftir fyrstu æfingu sína í síðustu viku.