Körfubolti

Portland byrjað að undirbúa brottför Aldridge?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Plumlee varð heimsmeistari með bandaríska landsliðinu í fyrra.
Plumlee varð heimsmeistari með bandaríska landsliðinu í fyrra. vísir/getty
Körfuboltamaðurinn Mason Plumlee er genginn í raðir Portland Trail Blazers í NBA-deildinni.

Plumlee kemur frá Brooklyn Nets en Portland fékk einnig valréttinn á Pat Connaughton (númer 41). Í staðinn fékk Brooklyn leikstjórnandann Steve Blake og valréttinn (númer 23) á framherjanum Rondae Hollis-Jeffersen.

Plumlee, sem er 25 ára, var valinn númer 22 í nýliðavalinu 2013 en á fyrsta ári sínu í NBA var hann valinn í úrvalslið nýliða. Hann var með 8,1 stig og 5,4 fráköst að meðaltali í leik árin tvö hjá Brooklyn.

Þá varð Plumlee heimsmeistari með bandaríska landsliðinu í fyrra en þjálfari Bandaríkjanna, Mike Krzyzewski, var þjálfari hans hjá Duke-háskólanum.

Leiða má líkum að því að með þessum skiptum sé Portland að búa sig undir hugsanlegt brotthvarf LaMarcus Aldridge en hann hefur m.a. verið orðaður við San Antonio Spurs.

Sjá einnig: 99% líkur á að Aldridge fari frá Portland.

Steve Blake er reyndur kappi en hann hefur farið víða síðan hann kom inn í deildina 2003. Brooklyn er áttunda liðið sem hann leikur með í NBA. Lengst var hann hjá Los Angeles Lakers, á árunum 2010-14.

Blake hefur skorað 6,7 stig og gefið 4,0 stoðsendingar að meðaltali í leik á ferlinum í NBA.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×