Innlent

Utanríkisráðherra í Eþíópíu á ráðstefnu um þróunarsamvinnu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Gunnar Bragi á fundinum í Addis Ababa.
Gunnar Bragi á fundinum í Addis Ababa. mynd/utanríkisráðuneytið
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, er um þessar mundir staddur á alþjóðlegri ráðstefnu um fjármögnun þróunarsamvinnu. Ráðstefnan fer fram dagana 13.-16. júlí í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, en um leið varð Gunnar Bragi fyrsti ráðherra ríkisstjórnarinnar til að ferðast til Afríku.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að í gær hafi ráðherrann flutt ávarp á málstofu á vegum SE4ALL (sjálbær orka fyrir alla). Í ávarpinu lagði hann áherslu á mikilvægi jarðhitanýtingar í þróunarsamvinnu og greindi frá áherslum og stuðningi Íslands á því sviði.

Einnig sagði hann frá frumkvæði Íslands og IRENA samtakanna um stofnun samstöðuhóps um nýtingu jarðhita á heimsvísu. Þeim hópi verður ýtt úr vör í París í desember. Auk Gunnars Braga ávörpuðu Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Jim Yong Kim, forseti Alþjóðabankans, málstofuna.

Ráðherrann tók einnig þátt í málstofu um fjárfestingu í jafnrétti kynjanna. Í erindi sínu lýsti hann yfir ánægju með hversu vel hafi tekist til að samþætta kynjasjónarmið í gegnum allt samningaferlið um fjármögnun þróunarsamvinnu.

Í kjölfar ráðstefnunnar mun Gunnar Bragi ferðast til Malaví þar sem hann mun funda með ráðamönnum og heimsækja verkefni Íslands á sviði þróunarsamvinnu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×