Sport

Gatlin öskraði á dóna af verðlaunapallinum

Gatlin bendir á dónann og kallar á hann.
Gatlin bendir á dónann og kallar á hann. vísir/getty
Spretthlauparinn Justin Gatlin er með umdeildari íþróttamönnum heims í dag. Hann er orðinn einn fljótasti maður heims á ný en hann var á sínum tíma dæmdur í fjögurra ára bann fyrir ólöglega lyfjanotkun.

Hann snéri aftur árið 2010 og hefur verið á uppleið síðan. Gatlin hefur hlaupið fljótast allra á þessu ári og var sigurstranglegastur fyrir úrslitin í 100 metra hlaupinu á HM í Peking í gær.

Mikil spenna var fyrir hlaupinu og margir sögðu að það væri áfall fyrir íþróttina ef þessi dæmdi svindlari myndi vinna hlaupið. Sumir fjölmiðlar stilltu hlaupinu til að mynda upp sem hið góða á móti hinu illa. Usain Bolt var þá í hlutverki hins góða.

Bolt vann úrslitahlaupið en var aðeins sekúndubroti á undan Gatlin. Sigur fyrir íþróttina sögðu þá margir.

Er verið var að veita Gatlin silfurverðlaunin þá tók hann eftir því að einhver var með dónaskap í garð móður hans í stúkunni. Það kunni hann ekki að meta og hóf að öskra og benda á manninn.

„Ég var bara að segja honum að slaka á og hætta þessu. Vera herramaður," sagði Gatlin eftir verðlaunaafhendinguna.

„Ég sá það í augum mömmu að hann var dónalegur. Hún er mamma mín og ég þekki hana."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×