Innlent

81 árs gamalt hitamet féll í Neskaupstað í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Neskaupsstað.
Frá Neskaupsstað. vísir/gva
Hitamet dagsins, 16. október, féll í dag þegar hiti mældist 18,4 stig í Neskaupstað. Þá mældist hitinn 18,3 stig á Kollaleiru en gamla metið var 18,2 stig og mældist árið 1934 á Teigarhorni. Hitamet októbermánaðar er þó nokkuð hærra, eða 23,5 stig og mældist þann 1. október 1973 á Dalatanga.

Trausti Jónsson, veðurfræðingur, fjallaði um hlýtt loft sem nú er yfir landinu á bloggi sínu í dag en í samtali við Vísi segir hann að um 5-8 dægurhitamet falli á ári. Það sé vissulega ekki algengt að svo hár hiti mælist í október en þó er það algengara en að minnsta kosti blaðamann grunar.

„Þetta er svona alltaf öðru hvoru og það er talsvert til af 20 stiga athugunum í október,“ segir Trausti.

Hann segir haustið nú hafa verið sérstaklega milt á Norður-og Austurlandi, til dæmis sé október til þessa 9. hlýjasti mánuðurinn frá 1949 og á Austfjörðum er þetta 6. hlýjasti mánuðurinn. Aftur á móti er október meðalmánuður það sem af er á höfuðborgarsvæðinu hvað hita og kulda varðar.

En hvers vegna er svona hlýtt fyrir austan nú?

„Það kemur loft að landinu mjög langt sunnan að og það er frekar óvenjulegt. Það er því mjög hlýtt og þegar það er svona hlýtt þá það yfir kalda loftið þannig að við hér á Suður-og Vesturlandi njótum þess ekki. Hins vegar fer það svo yfir fjöllin og þar blandast hlýja og kalda loftið þannig að hlýindin ná lengra niður þegar loftið kemur af fjöllum,“ segir Trausti.

Hann segir að ef heppnin er með fólkinu fyrir austan þá gæti hitinn mögulega farið yfir 20 stig á morgun en síðan fer veður kólnandi.

Sjá má veðurspána á Veðurvef Vísis.


Tengdar fréttir

Yfir 20 stiga hiti á morgun?

Trausti Jónsson, veðurfræðingur, segir mjög hlýtt loft nú yfir landinu og að með heppni gætu hitamet fallið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×