Er Ísland gott land? Jón Gnarr skrifar 10. október 2015 07:00 Ég er einsog svo margir aðrir alinn upp í þeirri trú að ég hafi verið ótrúlega heppinn að hafa fæðst á Íslandi en ekki einhvers staðar annars staðar. Mér hefur verið kennt, frá blautu barnsbeini að Ísland sé bara einfaldlega besta land í heimi til að vera til á, hér sé allt misjafnlega gott á meðan það er misjafnlega slæmt í öðrum löndum. Ég hef kyrjað dýrðarljóð um landið mitt, hvað það sé fallegt og stórkostlegt í alla staði. Íslenskt lambakjöt er besta kjöt í heimi, íslenskt vatn er umtalsvert betra vatn en allt annað vatn og Íslendingar eru yfirleitt betur að sér um flesta hluti heldur en fólk í útlöndum. Allt sem er gott í útlöndum er alltaf aðeins betra hér. Ísland er falleg og gjöful móðir. Esjan er langfallegasta fjall í heimi og Gullfoss er fallegasti foss í heimi. Fallegast af öllu er þó vorkvöld í Reykjavík. Og ekki má gleyma sumrunum. Hvergi í heiminum eru þau jafn kynngimögnuð og hér. Og jöklarnir setja tignarlegan blæ á tilveru allra Íslendinga. Við fundum upp pulsuna, kleinuna og kokkteilsósuna og án þeirrar heilögu þrenningar væri heimurinn heldur fábrotinn staður. Og ekki má gleyma eldfjöllunum og háhitasvæðunum og sjálfum Geysi, sem fólk ruglar yfirleitt saman við Strokk. En það skiptir ekki máli. Og heldur ekki veðrið. Maður kvartar ekki yfir því við nokkurn mann og brosir bara framaní suddann.Volaða land Þjóðskáldið Matthías Jochumsson, sem einsog Halldór Laxness heitir nafni sem stenst ekki mannanafnalög og ætti í raun að vera löngu búið að hafna af Mannanafnanefnd, samdi ljóð um Ísland sem ákaflega lítið hefur farið fyrir. Það heitir Volaða land og mun vera eitt af hans kjarnyrtustu ljóðum. Ljóðið er sannkölluð níðvísa um Ísland og kemst skáldið að þeirri niðurstöðu að hér sé hreinlega ekki búandi nokkurri lifandi veru nema hröfnum og enda hafi þeir fundið þetta „hrafnfundna land“. Þetta ljóð hefur ekki farið hátt, það heyrist sjaldan og ég man ekki eftir því úr Skólaljóðunum. Á einhvern meinfýsinn hátt er það fyndið að hann orti það skömmu eftir að hann flutti til Akureyrar en samkvæmt öllum sérblöðunum um Akureyri sem ég hef séð um ævina mætti halda að það væri fallegasti bær á Íslandi. En þetta var líka á þeim tíma þegar um 20% þjóðarinnar flúðu fósturjörðina vegna vosbúðar, fátæktar og almenns ömurleika.Ekkert sérstaklega næs Ég verð að viðurkenna að mér finnst Ísland ekkert sérstaklega næs. Mér leiðist veðrið hérna. Mér finnst íslenska sumarið stórlega ofmetið og oftast meira í orði en á borði. Mér finnst Esjan ekkert spes. Reyndar finnst mér öll fjöll á Íslandi vera meira og minna Esjan. Mér finnst Gullfoss alveg fínn en ekkert merkilegri en einhver annar foss. Kannski er það mín takmörkun en ég fyllist engri sérstakri sælutilfinningu þegar ég horfi yfir íslenskt landslag. Oftast veldur það mér bara kvíða og þá líður mér einsog gömlu Bubbalagi um langa og dimma vetur þar sem vindurinn smeygir sér inní allt og jafnvel inní sálina á manni og fyllir mann tómleika og vonleysi. Mér finnst þetta land hafa lagt sig fram við að reyna að murka úr okkur lífið eða að minnsta kosti flæma okkur í burtu. Við búum á vindasömu og köldu sprengjusvæði. Ef Ísland er móðir þá er hún bæði drykkfeld og dyntótt kerling. Maður veit aldrei hverju hún getur tekið uppá. Hún er oftast kuldaleg og í vondu skapi og frussar þegar hún talar og hún getur tekið brjálæðisköst algjörlega uppúr þurru. Oft er hún þunn og þá frekar þurr á manninn. Hún er ekkert sérstaklega styðjandi og getur drepið mann með augnaráðinu einu saman. En þegar hún er sofnuð áfengisdauða í sófanum þá stöndum við litlu börnin hennar og dáumst að því hvernig birtan frá Luxor-lampanum glitrar fallega í hári hennar. Og pulsurnar og kleinurnar sem hún keypti útí Bónus verða að kræsingum sem hún útbjó sérstaklega handa okkur. Og drykkjuþrútið andlit hennar einsog snoppufríð prinsessa. Við elskum hana einsog hún er. Skilyrðislaust. Því þótt hún sé kannski ekki besta mamma í heimi þá er hún mamma okkar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Gnarr Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Ég er einsog svo margir aðrir alinn upp í þeirri trú að ég hafi verið ótrúlega heppinn að hafa fæðst á Íslandi en ekki einhvers staðar annars staðar. Mér hefur verið kennt, frá blautu barnsbeini að Ísland sé bara einfaldlega besta land í heimi til að vera til á, hér sé allt misjafnlega gott á meðan það er misjafnlega slæmt í öðrum löndum. Ég hef kyrjað dýrðarljóð um landið mitt, hvað það sé fallegt og stórkostlegt í alla staði. Íslenskt lambakjöt er besta kjöt í heimi, íslenskt vatn er umtalsvert betra vatn en allt annað vatn og Íslendingar eru yfirleitt betur að sér um flesta hluti heldur en fólk í útlöndum. Allt sem er gott í útlöndum er alltaf aðeins betra hér. Ísland er falleg og gjöful móðir. Esjan er langfallegasta fjall í heimi og Gullfoss er fallegasti foss í heimi. Fallegast af öllu er þó vorkvöld í Reykjavík. Og ekki má gleyma sumrunum. Hvergi í heiminum eru þau jafn kynngimögnuð og hér. Og jöklarnir setja tignarlegan blæ á tilveru allra Íslendinga. Við fundum upp pulsuna, kleinuna og kokkteilsósuna og án þeirrar heilögu þrenningar væri heimurinn heldur fábrotinn staður. Og ekki má gleyma eldfjöllunum og háhitasvæðunum og sjálfum Geysi, sem fólk ruglar yfirleitt saman við Strokk. En það skiptir ekki máli. Og heldur ekki veðrið. Maður kvartar ekki yfir því við nokkurn mann og brosir bara framaní suddann.Volaða land Þjóðskáldið Matthías Jochumsson, sem einsog Halldór Laxness heitir nafni sem stenst ekki mannanafnalög og ætti í raun að vera löngu búið að hafna af Mannanafnanefnd, samdi ljóð um Ísland sem ákaflega lítið hefur farið fyrir. Það heitir Volaða land og mun vera eitt af hans kjarnyrtustu ljóðum. Ljóðið er sannkölluð níðvísa um Ísland og kemst skáldið að þeirri niðurstöðu að hér sé hreinlega ekki búandi nokkurri lifandi veru nema hröfnum og enda hafi þeir fundið þetta „hrafnfundna land“. Þetta ljóð hefur ekki farið hátt, það heyrist sjaldan og ég man ekki eftir því úr Skólaljóðunum. Á einhvern meinfýsinn hátt er það fyndið að hann orti það skömmu eftir að hann flutti til Akureyrar en samkvæmt öllum sérblöðunum um Akureyri sem ég hef séð um ævina mætti halda að það væri fallegasti bær á Íslandi. En þetta var líka á þeim tíma þegar um 20% þjóðarinnar flúðu fósturjörðina vegna vosbúðar, fátæktar og almenns ömurleika.Ekkert sérstaklega næs Ég verð að viðurkenna að mér finnst Ísland ekkert sérstaklega næs. Mér leiðist veðrið hérna. Mér finnst íslenska sumarið stórlega ofmetið og oftast meira í orði en á borði. Mér finnst Esjan ekkert spes. Reyndar finnst mér öll fjöll á Íslandi vera meira og minna Esjan. Mér finnst Gullfoss alveg fínn en ekkert merkilegri en einhver annar foss. Kannski er það mín takmörkun en ég fyllist engri sérstakri sælutilfinningu þegar ég horfi yfir íslenskt landslag. Oftast veldur það mér bara kvíða og þá líður mér einsog gömlu Bubbalagi um langa og dimma vetur þar sem vindurinn smeygir sér inní allt og jafnvel inní sálina á manni og fyllir mann tómleika og vonleysi. Mér finnst þetta land hafa lagt sig fram við að reyna að murka úr okkur lífið eða að minnsta kosti flæma okkur í burtu. Við búum á vindasömu og köldu sprengjusvæði. Ef Ísland er móðir þá er hún bæði drykkfeld og dyntótt kerling. Maður veit aldrei hverju hún getur tekið uppá. Hún er oftast kuldaleg og í vondu skapi og frussar þegar hún talar og hún getur tekið brjálæðisköst algjörlega uppúr þurru. Oft er hún þunn og þá frekar þurr á manninn. Hún er ekkert sérstaklega styðjandi og getur drepið mann með augnaráðinu einu saman. En þegar hún er sofnuð áfengisdauða í sófanum þá stöndum við litlu börnin hennar og dáumst að því hvernig birtan frá Luxor-lampanum glitrar fallega í hári hennar. Og pulsurnar og kleinurnar sem hún keypti útí Bónus verða að kræsingum sem hún útbjó sérstaklega handa okkur. Og drykkjuþrútið andlit hennar einsog snoppufríð prinsessa. Við elskum hana einsog hún er. Skilyrðislaust. Því þótt hún sé kannski ekki besta mamma í heimi þá er hún mamma okkar.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun