Körfubolti

John Stockton verður þjálfari í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Stockton.
John Stockton. Vísir/Getty
John Stockton, sá sem hefur gefið flestar stoðsendingar og stolið flestum boltum í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta, hefur jafnan forðast sviðsljósið og haldið sér frá körfuboltanum síðan að hann lagði skóna á hilluna árið 2002.

Stockton er nú kominn aftur inn í sviðsljósið því hann hefur nú samþykkt að verða aðstoðarþjálfari hjá Montana State háskólaliðinu í vetur. Stockton mun aðstoða Triciu Binford sem þjálfar kvennalið skólans. ESPN segir frá.

Það er ekki alveg eintóm tilviljun að John Stockton sé farinn að þjálfa kvennalið Montana State háskólans.

Með liðinu spilar dóttir hans Lindsay Stockton sem er bakvörður eins og pabbi sinn var. Lindsay var með 8,7 stig og 4,3 stoðsendingar að meðaltali á síðasta tímabili en liðið vann þá 15 af 30 leikjum sínum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Lindsay spilar fyrir pabba sinn því hann þjálfaði hana einnig í menntaskóla þegar hún var í Gonzaga Prep skólanum í Spokane.

John Stockton er orðinn 53 ára gamall en hann spilaði í 19 tímabil með Utah Jazz auk þess að vinna tvö Ólympíugull með bandaríska landsliðinu. Stockton var með 19.711 stig (13,1 í leik), 15.806 stoðsendingar (10,5 í leik) og 3.265 stolna bolta (2,2 í leik) í 1504 leikjum sínum í NBA.

John Stockton á sex börn sem öll hafa spilað körfubolta. Laura Stockton, hin dóttir hans, spilar með Gonzaga University en tveir synir hans hafa spilað sem atvinnumenn í Þýskalandi og sá þriðji, David Stockton, var að reyna fyrir sér í NBA hjá Sacramento Kings en var látinn fara fyrir tímabilið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×