Körfubolti

FSu búið að senda Bandaríkjamanninn sinn heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Anderson.
Chris Anderson. Vísir/Ernir
Nýliðar FSu verða kanalausir í næstu leikjum en stjórn og þjálfarar liðsins hafa ákveðið að senda Bandaríkjamanninn Chris Anderson heim. FSu bíður enn eftir fyrsta sigri tímabilsins í Domino´s deild karla í körfubolta.

Christopher Anderson var settur á bekkinn í síðasta leik á móti Haukum og það þarf því ekki að koma á óvart að leikmaðurinn sé á heimleið. Anderson klikkaði á 7 af 10 skotum sínum í lokaleiknum á Ásvöllum.

„Chris er hæfileikaríkur körfuboltamaður en náði að mati forráðamanna liðsins ekki að setja mark sitt á leik þess með þeim afgerandi og jákvæða hætti sem vonir stóðu til. FSU-KARFA þakkar Anderson fyrir samstarfið þessa rúmu tvo mánuði og óskar honum velgengni á körfuboltaferli sínum í framtíðinni," segir í frétt á heimasíðu FSu.

Christopher Anderson var með 20,0 stig og 6,6 fráköst að meðaltali. Hann var jafnframt með 17,8 framlagsstig að meðaltali í leik en var það næstlægsta hjá öllum bandarísku leikmönnum deildarinnar.

Framlag hans í fjórða leikhluta var afar dapurt (3,6 stig að meðaltali) en FSu hefur tapað niður forskot í fjórða leikhluta í nokkrum leikja sinna.

Í fréttinni kemur jafnfram fram að FSu-liðið muni leika án erlends leikmanns á næstunni en að ákvörðun um hvort og þá hvenær samið verður við annan leikmann verði kynnt fljótlega.

Næsti leikur FSu-liðsins er á heimavelli á móti Njarðvík á fimmtudaginn kemur.


Tengdar fréttir

Sjáðu tröllatroðslur Anderson

Chris Anderson, leikmaður FSu í Dominos-deild karla, sýndi mögnuð tilþrif í leiknum gegn Þór í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×