Handbolti

Sigur hjá Íslendingaliðunum í Meistaradeildinni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alexander í leik með Löwen.
Alexander í leik með Löwen. vísir/getty
Aron Pálmarsson og félagar í Veszprem unnu góðan sigur á Celje í Meistaradeild Evrópu í dag, en leikið var í Slóveníu. Lokatölur urðu þriggja marka sigur Veszprem, 30-27.

Það var strax ljóst í hvað stefndi en gestirnir frá Ungverjalandi byrjuðu af miklum krafti. Þeir skoruðu þrjú fyrstu mörkin og voru komnir með sjö marka forystu, 11-4, þegar ekki var langt um liðið.

Staðan í hálfleik var 17-11, en í síðari hálfleik reyndu heimamenn allt hvað þeir gátu til að minnka muninn. Þeir náðu að minnka muninn í þrjú mörk, en nær komust þeir ekki og Veszprem vann að lokum 30-27.

Aron Pálmarsson spilaði ekkert í leiknum, en hann var hvíldur. Renato Sulic var markahæstur hjá Veszprem með átta mörk og næstur kom Momir Ilic með sjö. Hjá Celje var Luka Zvizej markahæstur með sex mörk.

Veszprem fór upp i annað sætið með sigrinum, en þeir eru stigi á eftir PSG sem er á toppi riðilsins. Celje er í sjöunda sætinu með tvö stig eftir fyrstu sjö leikina.

Rhein-Neckar Löwen vann sterkan útisigur á Montpellier í Frakklandi, en sá leikur var einnig í Meistaradeild Evrópu. Lokatölur urðu 30-28, Löwen í vil, eftir að refirnir höfðu leitt 16-15 í hálfleik.

Kim Ekdahl du Rietz var markahæstur hjá Löwen með sjö mörk, en Alexander Petersson skoraði tvö mörk úr fjórum skotum. Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað.

Löwen fór upp í þriðja sæti riðilsins með sigrinum, en þeir eru með níu stig. Barcelona er á toppnum með ellefu og Vardar í því öðru með tíu. Montpellier er í sjötta sætinu með fjögur stig eftir leikina sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×