Innlent

Ráðherra telur erfiða stöðu á húsnæðismarkaði ekki endilega ástæðuna fyrir landflótta ungs fólks

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir Vísir/Ernir
Eygló Harðardóttir, félags-og húsnæðismálaráðherra, telur ekki að húsnæðismálin séu endilega ástæða þess að ungt og menntað fólk flýr Ísland og flytur til útlanda. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

 

Mikil umræða hefur verið síðustu misseri um slæma stöðu á húsnæðismarkaði. Erfitt er fyrir ungt fólk að fjárfesta í húsnæði þar sem fáir eiga nokkrar milljónir fyrir útborgun í íbúð.

Sú staða fléttast saman við stöðuna á leigumarkaði þar sem leiguverð er afar hátt og framboðið mun minna en eftirspurn. Ástandið endurspeglast meðal annars í því að 25 prósent Íslendinga á þrítugsaldri býr enn hjá foreldrum sínum.

Húsnæðisfrumvörp haustþingsins ekki verið lögð fram

Húsnæðismálaráðherra hefur boðað sex húsnæðisfrumvörp á yfirstandandi haustþingi og spurði Steingrímu J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, út í frumvörpin þar sem ekkert þeirra hefur verið lagt fram á þingi.

Sagði hann ekki nóg að halda fjölskipaða ráðherrafundi út í bæ ef ekkert gerðist svo í málaflokknum. Spurði hann hvort ráðherrann teldi eina ástæðuna fyrir landflótta ungs fólks vera vegna þess að „húsnæðismálin eru í þvílíkum ólestri,“ eins og Steingrímur orðaði það. Þá innti hann Eygló eftir því hvort ágreiningur væri um frumvörpin eða hvort hún hefði einfaldlega gefist upp á málinu.

Eygló sagði að unnið væri hörðum höndum að því að klára frumvörpin en lykilatriði vær að ná sátt um þau. Hún sagði víðtækt samráð felast í vinnunni við þau en aðilar vinnumarkaðarins og sveitarfélögin koma meðal annars að henni.

Húsnæðismarkaðurinn verri í öðrum löndum að mati ráðherra

Hvað varðaði svo spurninguna um hvort að brottflutningar ungs fólks tengdist húsnæðismálum sagði ráðherrann á að staðan á húsnæðismarkaði á Norðurlöndunum og Bretlandi væri á mörgum stöðum verri en hér á landi.

„Þannig að ég held að við verðum að horfa til einhverra annarra þátta en húsnæðismála hvað það varðar. Síðan vil ég líka benda á að menn hafa rætt um áhyggjur vegna möguleika ungs fólks á að taka lán. Það tengist að vísu náttúrulega neytendalánalöggjöfinni sem háttvirtur þingmaður stóð að og talaði fyrir á sínum tíma sem hefti mjög möguleika fólks á að fá lán.“


Tengdar fréttir

Boða aðgerðir á húsnæðismarkaði

Búast má við því að byggingarreglugerð verði breytt og hugmyndasamkeppni sett af stað um hagkvæmar húsnæðislausnir, til að lækka byggingarkostnað. Þetta kom fram á fjölmennum samráðsfundi stjórnvalda um aðgerðir á sviði húsnæðismála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×