Innlent

Tæknilausn CRI veitt athygli á loftslagsráðstefnunni í París

Svavar Hávarðsson skrifar
Verksmiðjan í Svartsengi var gangsett árið 2012.
Verksmiðjan í Svartsengi var gangsett árið 2012. mynd/CRI
KC Tran, forstjóri Carbon Recycling International (CRI), tekur þátt í hringborði forstjóra og stjórnarformanna alþjóðlegra fyrirtækja á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP21) þar sem rædd verður ályktun um hvaða raunhæfu aðgerðir fyrirtækin hyggjast ráðast í til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnframleiðslu.

Í tilkynningu segir að tækni CRI hafi vakið athygli en hún var fyrst reynd í verksmiðju fyrirtækisins í Svartsengi, þar sem koltvísýringsútblæstri (CO2) úr orkuveri er breytt í fljótandi eldsneyti. Með því að nota koltvísýring sem berst frá iðnaði og orkuverum sem hráefni til eldsneytisframleiðslu, er hægt að draga úr kostnaði við að minnka losun og draga jafnframt úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum og þar með koltvísýringslosun frá bílum.

Ráðstefnan er skipulögð af UN Global Compact, sem eru samtök Sameinuðu þjóðanna til að efla samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, framkvæmdastjórn Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna o.fl.

Áhugi á tækni til að draga úr kostnaði við að minnka losun og nýta koltvísýring fer mjög vaxandi. CRI var stofnað árið 2006 en verksmiðjan í Svartsengi var gangsett árið 2012. Önnur verksmiðja er í smíðum og mun rísa í Lünen í Þýskalandi. CRI á nú í viðræðum við aðila í Evrópu og Kína um að reisa sambærilegar verksmiðjur. Hjá fyrirtækinu starfa 40 manns á Íslandi, í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína. Hluthafar eru um 60 talsins, frá Íslandi, Kína, Kanada og Bandaríkjunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×