Körfubolti

Baldur orðinn sá elsti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snæfellingurinn Baldur Þorleifsson varð í kvöld elsti stigaskorari efstu deildar karla í körfubolta frá upphafi.

Baldur skoraði tvö stig af vítalínunni er Stjarnan vann stórsigur á Snæfelli í Ásgarði, 109-73.

Sjá einnig: Búið í fyrsta leikhluta

Baldur er í dag 49 ára, þriggja mánaða og sex daga en Sauðkrækingurinn Kári Marísson var 49 ára, tveggja mánaða og 22 daga þegar hann skoraði sín síðustu stig í efstu deild árið 2001.

Baldur fékk mikið hrós frá Inga Þór Steinþórssyni, þjálfara Snæfells, eftir leikinn í kvöld.

„Hann er ekki í versta formi í deildinni og ekki heldur í mínu liði. Hann er flottur og gerir það að verkum að við getum stillt upp í fimm á fimm á æfingum.“

„Hann mætir í vinnu alla daga og er að smíða frá sjö á morgnana til sex á kvöldin, áður en hann kemur á æfingu til okkar og tekur vel á því.“

„Það geta margir litið upp til hans - þeirra á meðal ég. Það er ekki slæmt að vera í leikformi 49 ára gamall.“

Gunnlaugur Smárason, aðstoðarþjálfari Inga Þórs, spilaði einnig með í kvöld en það er í fyrsta sinn í langan tíma sem hann reimar á sig skóna.

„Hann kann leikinn vel. Ég er samt líklega eini maðurinn sem hefði ekki getað dekkað hann í kvöld. Líkamlegir burðir hans eru ekki klárir í efstu deild. Við skulum bara hafa það alveg á hreinu,“ segir hann og brosir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×