Ofbeldisbörn María Elísabet Bragadóttir skrifar 11. desember 2015 07:00 Varð óvart vitni að prívatsamtali tveggja manneskja á götuhorni um daginn. Setningarnar sem flugu á milli voru upp á líf og dauða. – Hvað gerist ef ég sting þessu í hjartað á þér? – Ég dey! Ég dey strax. Þetta voru tvö börn. Annað þeirra þungvopnað. Lúffuklæddar hendur kreistu risavaxið grýlukerti. Var tvístígandi yfir því hvort þarna væri á ferðinni forhert ofbeldisbarn. Augnabliki síðar kútveltust þau hlæjandi um í snjóskafli og engin illska sveif yfir vötnum. En barnæskan er auðvitað ekki dans á dúnmjúkum rósablöðum. Þótt þú bannir barninu þínu að horfa á ofbeldismyndir mun það finna leiðir til að kanna myrkari lendur hugans. Sem barn reyndi ég að horfa reglulega á bannaðar myndir. Forvitnilegt að spá í þann tvískinnung að ofbeldi á spólu var forboðið en ef það var í bók var það dúndurfínt. Þess vegna mátti ég lesa Grimms-ævintýrin þótt leitun sé að svæsnari ofbeldissögum. Sakleysinginn Mjallhvít keypti í ógáti lífstykki sem kæfði hana. Morðóð drottning var neydd til að dansa í rauðglóandi járnskóm. Galdranorn matreiddi börn og var fyrir rest bökuð til dauða í geysistórum ofni. Örlög vondrar stjúpu voru að rúlla niður brekku, kviknakin í tunnu fylltri nöglum. Fékk virkilega að vaða eldinn þegar kom að lesefni. Sást samt ekki utan á mér. Var hrekklaust og guðhrætt barn, smámælt á gammósíum. Las grafískar morðlýsingar og horfði á Bangsímon til skiptis. Ofan í allan ofbeldislesturinn datt sem betur fer engum í hug að gefa mér leikfangabyssu eða lásboga úr plasti. Geislasverðum var fórnað á altari mjúku bangsanna. En hugsið ykkur ef ég hefði bæði átt dótahníf og lesið Grimms-ævintýrin. Ég þori varla að hugsa þá hugsun til enda. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein María Elísabet Bragadóttir Mest lesið Er Kópavogsbær vel rekinn? Bergljót Kristinsdóttir Skoðun Við munum aldrei fela okkur aftur Kári Garðarsson Skoðun NÓG ER NÓG – Heilbrigðiskerfið er í neyðarástandi Ásthildur Kristín Björnsdóttir Skoðun Er gagnlegt að kunna að forrita á tímum gervigreindar? Henning Arnór Úlfarsson Skoðun Torfærur, hossur og hristingar! Magnús Jochum Pálsson Skoðun Um sjónarhorn og sannleika Líf Magneudóttir Skoðun Lýðræðið er farið – er of seint að snúa við? Einar G. Harðarson Skoðun Umdeildasti fríverslunarsamningur sögunnar? Arnar Þór Ingólfsson Skoðun Sparnaðarráð fyrir ferðalagið Svandís Edda Jónudóttir Skoðun Leikjanámskeið fyrir fullorðna við Austurvöll Þórður Snær Júlíusson Skoðun
Varð óvart vitni að prívatsamtali tveggja manneskja á götuhorni um daginn. Setningarnar sem flugu á milli voru upp á líf og dauða. – Hvað gerist ef ég sting þessu í hjartað á þér? – Ég dey! Ég dey strax. Þetta voru tvö börn. Annað þeirra þungvopnað. Lúffuklæddar hendur kreistu risavaxið grýlukerti. Var tvístígandi yfir því hvort þarna væri á ferðinni forhert ofbeldisbarn. Augnabliki síðar kútveltust þau hlæjandi um í snjóskafli og engin illska sveif yfir vötnum. En barnæskan er auðvitað ekki dans á dúnmjúkum rósablöðum. Þótt þú bannir barninu þínu að horfa á ofbeldismyndir mun það finna leiðir til að kanna myrkari lendur hugans. Sem barn reyndi ég að horfa reglulega á bannaðar myndir. Forvitnilegt að spá í þann tvískinnung að ofbeldi á spólu var forboðið en ef það var í bók var það dúndurfínt. Þess vegna mátti ég lesa Grimms-ævintýrin þótt leitun sé að svæsnari ofbeldissögum. Sakleysinginn Mjallhvít keypti í ógáti lífstykki sem kæfði hana. Morðóð drottning var neydd til að dansa í rauðglóandi járnskóm. Galdranorn matreiddi börn og var fyrir rest bökuð til dauða í geysistórum ofni. Örlög vondrar stjúpu voru að rúlla niður brekku, kviknakin í tunnu fylltri nöglum. Fékk virkilega að vaða eldinn þegar kom að lesefni. Sást samt ekki utan á mér. Var hrekklaust og guðhrætt barn, smámælt á gammósíum. Las grafískar morðlýsingar og horfði á Bangsímon til skiptis. Ofan í allan ofbeldislesturinn datt sem betur fer engum í hug að gefa mér leikfangabyssu eða lásboga úr plasti. Geislasverðum var fórnað á altari mjúku bangsanna. En hugsið ykkur ef ég hefði bæði átt dótahníf og lesið Grimms-ævintýrin. Ég þori varla að hugsa þá hugsun til enda.