Skylmingar hjá Kammersveitinni Jónas Sen skrifar 22. desember 2015 15:30 Kammersveit Reykjavíkur á æfingu. Tónlist Hljómsveitartónleikar Kammersveit Reykjavíkur flutti verk eftir Biber, Muffat, Schmelzer og Bach. Einleikarar: Una Sveinbjarnardóttir, Áshildur Haraldsdóttir og Jeremy Joseph. Áskirkju Sunnudaginn 20. desember Hallgrímur Helgason rithöfundur hneykslaði einu sinni lesendur Alþýðublaðsins sáluga með textum við þekkt jólalög. „Það á að gefa Grýlu börn að bíta í á jólunum“ byrjaði einn. „Við skulum fara, þett’er algert fól, farðu þarna feiti, jóla-asshole“ hljómaði annar ef ég man rétt. Jólatónlist er meira en svoleiðis lög og miklu meira en öll þessi linnulausa jólapoppsíbylja sem heyrist á hverju götuhorni. Fyrir marga er engin músík eins viðeigandi og sú sem var samin á barokktímanum, í tíð Bachs og félaga. Hún er formföst og hátíðleg, líkt og jólin. Svo er hún líka glaðleg og full af fjöri ef þannig ber undir. Barokktónlist er því algeng á klassískum tónleikum í desember. Eins og t.d. á hinum árvissu jólatónleikum Kammersveitar Reykjavíkur sem jafnan eru haldnir í Áskirkju. Ég fór þangað á sunnudaginn en vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að hafa komið of seint. Fyrsta verkið á dagskránni, sónata eftir Biber, var byrjuð þegar ég kom og ætla ég því ekki að fjalla nánar um hana hér. En næst var Passacaglia eftir Georg Muffat. Fyrir þá sem ekki vita er passacaglia einskonar dans sem grundvallast á síendurteknu bassastefi. Að því leyti til á hún ýmislegt sameiginlegt með poppmúsík. Passacaglian er þó miklu alvarlegri og flóknari. Verk Muffats hljómaði afar fallega. Hljómsveitin var fullkomlega samtaka. Heildarhljómurinn var þéttur og sterkur. Túlkunin var gædd áhrifamikilli stígandi með kröftugum hápunkti. Balleto, danssvíta eftir Johann Heinrich Schmelzer var einnig skemmtileg. Hún ku eiga að draga upp mynd af skylmingaskóla. Eftir því var tónlistin eldhvöss og kvik, full af glettum og gríni. Flutningurinn var magnaður og grípandi, en jafnframt gríðarlega fágaður og nákvæmur. Tveir einleikskonsertar eftir Bach voru á efnisskránni, konsert í a moll BWV 1044 og Brandenborgarkonsert nr. 5. Einleikararnir voru Una Sveinbjarnadóttir á fiðlu, Áshildur Haraldsdóttir á flautu og hinn suður-afríski Jeremy Joseph á sembal. Þau voru frábær. Fiðluleikur Unu var tær og hnitmiðaður, flautuleikur Áshildar var innilegur og blæbirgðaríkur og semballeikur Joseph var í einu orði sagt dásamlegur. Hann var svo öruggur og hröð tónahlaup voru svo akkúrat og glitrandi að það var unaðslegt áheyrnar. Hljómsveitin var líka pottþétt á sínu, hún spilaði af aðdáunarverðri fagmennsku. Maður fylltist jólaanda á þessum líflegu tónleikum. Niðurstaða: Sérlega glæsileg dagskrá með flottum einleikurum. Menning Mest lesið Héldu að hún væri rokkstjarna eða gift ríkum gaur Tíska og hönnun Helena krýnd Ungfrú Ísland Lífið Spegill, spegill, herm þú mér, hve léleg endurgerðin er Gagnrýni Vel yfir milljón á fermetrann og baðkar í eldhúsinu Lífið „Ég vissi að ég væri ekki fara að skila honum“ Makamál Stuðlabandið höfundar og flytjendur Þjóðhátíðarlagsins: „Við megum ekki fokka þessu upp“ Lífið Horfði aftur á keppnina þegar hún kom heim Lífið Rauf þögnina og minntist Kilmer með stundarþögn Lífið Bað strax um verkjalyf eftir nefaðgerðina Lífið Ása Steinars og Leó greina frá kyninu Lífið Fleiri fréttir Spegill, spegill, herm þú mér, hve léleg endurgerðin er Rislítil ástarsaga Eldborg breyttist í vélrænt helvíti Kaldrifjað morð, ungar karlrembur og kæfandi andrúmsloft Strípibúlluást sem hleypir öllu í háaloft Stormur fellur á prófinu Víkingur Heiðar á fjölbreyttri afmælisveislu með ljóslifandi hápunktum Leiksigur Ladda Elísabet fær uppreist æru Sjá meira
Tónlist Hljómsveitartónleikar Kammersveit Reykjavíkur flutti verk eftir Biber, Muffat, Schmelzer og Bach. Einleikarar: Una Sveinbjarnardóttir, Áshildur Haraldsdóttir og Jeremy Joseph. Áskirkju Sunnudaginn 20. desember Hallgrímur Helgason rithöfundur hneykslaði einu sinni lesendur Alþýðublaðsins sáluga með textum við þekkt jólalög. „Það á að gefa Grýlu börn að bíta í á jólunum“ byrjaði einn. „Við skulum fara, þett’er algert fól, farðu þarna feiti, jóla-asshole“ hljómaði annar ef ég man rétt. Jólatónlist er meira en svoleiðis lög og miklu meira en öll þessi linnulausa jólapoppsíbylja sem heyrist á hverju götuhorni. Fyrir marga er engin músík eins viðeigandi og sú sem var samin á barokktímanum, í tíð Bachs og félaga. Hún er formföst og hátíðleg, líkt og jólin. Svo er hún líka glaðleg og full af fjöri ef þannig ber undir. Barokktónlist er því algeng á klassískum tónleikum í desember. Eins og t.d. á hinum árvissu jólatónleikum Kammersveitar Reykjavíkur sem jafnan eru haldnir í Áskirkju. Ég fór þangað á sunnudaginn en vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að hafa komið of seint. Fyrsta verkið á dagskránni, sónata eftir Biber, var byrjuð þegar ég kom og ætla ég því ekki að fjalla nánar um hana hér. En næst var Passacaglia eftir Georg Muffat. Fyrir þá sem ekki vita er passacaglia einskonar dans sem grundvallast á síendurteknu bassastefi. Að því leyti til á hún ýmislegt sameiginlegt með poppmúsík. Passacaglian er þó miklu alvarlegri og flóknari. Verk Muffats hljómaði afar fallega. Hljómsveitin var fullkomlega samtaka. Heildarhljómurinn var þéttur og sterkur. Túlkunin var gædd áhrifamikilli stígandi með kröftugum hápunkti. Balleto, danssvíta eftir Johann Heinrich Schmelzer var einnig skemmtileg. Hún ku eiga að draga upp mynd af skylmingaskóla. Eftir því var tónlistin eldhvöss og kvik, full af glettum og gríni. Flutningurinn var magnaður og grípandi, en jafnframt gríðarlega fágaður og nákvæmur. Tveir einleikskonsertar eftir Bach voru á efnisskránni, konsert í a moll BWV 1044 og Brandenborgarkonsert nr. 5. Einleikararnir voru Una Sveinbjarnadóttir á fiðlu, Áshildur Haraldsdóttir á flautu og hinn suður-afríski Jeremy Joseph á sembal. Þau voru frábær. Fiðluleikur Unu var tær og hnitmiðaður, flautuleikur Áshildar var innilegur og blæbirgðaríkur og semballeikur Joseph var í einu orði sagt dásamlegur. Hann var svo öruggur og hröð tónahlaup voru svo akkúrat og glitrandi að það var unaðslegt áheyrnar. Hljómsveitin var líka pottþétt á sínu, hún spilaði af aðdáunarverðri fagmennsku. Maður fylltist jólaanda á þessum líflegu tónleikum. Niðurstaða: Sérlega glæsileg dagskrá með flottum einleikurum.
Menning Mest lesið Héldu að hún væri rokkstjarna eða gift ríkum gaur Tíska og hönnun Helena krýnd Ungfrú Ísland Lífið Spegill, spegill, herm þú mér, hve léleg endurgerðin er Gagnrýni Vel yfir milljón á fermetrann og baðkar í eldhúsinu Lífið „Ég vissi að ég væri ekki fara að skila honum“ Makamál Stuðlabandið höfundar og flytjendur Þjóðhátíðarlagsins: „Við megum ekki fokka þessu upp“ Lífið Horfði aftur á keppnina þegar hún kom heim Lífið Rauf þögnina og minntist Kilmer með stundarþögn Lífið Bað strax um verkjalyf eftir nefaðgerðina Lífið Ása Steinars og Leó greina frá kyninu Lífið Fleiri fréttir Spegill, spegill, herm þú mér, hve léleg endurgerðin er Rislítil ástarsaga Eldborg breyttist í vélrænt helvíti Kaldrifjað morð, ungar karlrembur og kæfandi andrúmsloft Strípibúlluást sem hleypir öllu í háaloft Stormur fellur á prófinu Víkingur Heiðar á fjölbreyttri afmælisveislu með ljóslifandi hápunktum Leiksigur Ladda Elísabet fær uppreist æru Sjá meira