Valur heldur áfram að safna liði fyrir átökin í Pepsi-deild kvenna í fótbolta á næsta tímabili en í gær skrifaði Thelma Björk Einarsdóttir undir tveggja ára samning við félagið. Þetta kemur fram á heimasíðu Vals.
Thelma, sem er 25 ára vinstri bakvörður, er uppalinn hjá Val en hefur leikið með Selfossi undanfarin tvö tímabil.
Thelma hefur bæði orðið Íslands- og bikarmeistari með Val og þá hefur hún leikið níu A-landsleiki fyrir Ísland. Thelma hefur alls leikið 83 leiki fyrir meistaraflokk Vals og skorað í þeim fjögur mörk.
Eftir slakt gengi undanfarin tvö ár er ljóst að Valur ætlar sér stóra hluti í Pepsi-deildinni næsta sumar.
Valur hefur sankað að sér leikmönnum í vetur en auk Thelmu hafa systurnar Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur, Arna Sif Ásgrímsdóttir og Rúna Sif Stefánsdóttir gengið til liðs við félagið.

