„Þetta er frábært, við erum í skýjunum og þökkum Stöð 2 fyrir það traust sem fyrirtækið sýnir okkur með að fá okkur í þetta verkefni,“ segir Magnús Hlynur Hreiðarsson, fréttamaður Stöðvar 2 á Suðurlandi.
Magnús Hlynur og sonur hans Fannar Freyr hafa undirritað samning við 365 um framleiðslu á þáttunum Feðgar á ferð sem sýndir verða í sumar á Stöð 2.
„Við ætlum að heimsækja skemmtilegt og jákvætt fólk á Suðurlandi og Suðurnesjunum, það fær enginn neikvæður að vera með. Nafnið á þættinum vísar til okkar Fannars en við erum feðgar, hann er elsti strákurinn minn, 23 ára,“ segir Magnús Hlynur sem á fjóra syni. „Ég kvíði ekki samstarfinu við Fannar Frey, hann er toppstrákur og fagmaður fram í fingurgóma þegar kemur að klippingu og frágangi sjónvarpsefnis enda fréttaklippari á Stöð 2.
Það á margt eftir að koma mjög á óvart í þessum þáttum, því lofum við, án þess að ég vilji fara nánar út í það,“ bætir Magnús Hlynur við.
„Þetta er frábært tækifæri til að kynnast Suðurlandi í sumar sem Magnús Hlynur er þekktur fyrir að segja frá á sinn einstaka hátt,“ segir Gísli Berg, yfirframleiðandi 365.
Það þótti vel við hæfi að undirritun samningsins færi fram á Litlu-Kaffistofunni.
Feðgar á ferð gera þætti um Suðurland
