Lífið

María fagnar því að Frikki Dór syngi með

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Söngkona María Ólafsdóttir segir það efla hópinn og atriðið að fá Friðrik Dór með til Austurríkis.
Söngkona María Ólafsdóttir segir það efla hópinn og atriðið að fá Friðrik Dór með til Austurríkis. Vísir/ANDRI MARINó
„Ég fagna því mjög að Frikki komi með okkur til Austurríkis. Hann er frábær söngvari og eflir hópinn til muna,“ segir söngkonan María Ólafsdóttir, sem syngur framlag Íslands til Eurovison, lagið Unbroken.

Hún blæs á þá neikvæðu umræðu sem hefur átt sér stað í athugasemdakerfum og samfélagsmiðlum. Þar heldur margt fólk því fram að Friðrik Dór sé að troða sér inn í atriðið.

„Mér finnst það leiðinlegt að fólk skuli halda að hann sé að reyna að troða sér inn í atriðið. Við buðum honum að syngja bakraddir og hann þáði það. Frikki er góður strákur og við erum öll stór góður vinahópur,“ útskýrir María.

Nú liggur það fyrir að þau verða saman á sviðinu í lokakeppni Eurovision sem fram fer í Vínarborg í Austurríki í maí, en Friðrik mun þar syngja bakraddir. Hún segist hlakka mikið til þess að fara út og að mikil samstaða sé í hópnum. Friðrik Dór og María sungu hvort sitt lagið eftir þremenningana í StopWaitGo í úrslitaeinvígi Söngvakeppni Sjónvarpsins síðastliðið laugardagskvöld en þar hafði María betur.

Þá eru María og Friðrik Dór að fara að syngja saman dúett í fyrsta sinn í dag á útvarpsstöðinni Kananum. „Það er aldrei að vita nema við syngjum eitthvað meira saman í framtíðinni,“ bætir María við létt í lundu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×