Innlent

Gæti jafnvel truflað ásýnd Alþingishússins

Ingólfur Eiríksson skrifar
Fyrrverandi forseti Alþingis er ekki sannfærður um ágæti tillögu forsætisráðherra um viðbyggingu.
Fyrrverandi forseti Alþingis er ekki sannfærður um ágæti tillögu forsætisráðherra um viðbyggingu. vísir
„Að óathuguðu máli er ég ekki hrifinn af þessu,“ segir Sturla Böðvarsson, fyrrverandi forseti Alþingis, um þingsályktunartillögu um nýja viðbyggingu við þinghúsið.

Sturla fór fyrir vinnu að nýrri viðbyggingu árið 2007, þegar hann var forseti þingsins.

Hann segir ljóst að byggja þurfi við þingið, en kveðst óviss um að teikningar Guðjóns Samúelssonar falli að gerð gömlu endurbyggðu húsanna við Alþingisreitinn.

„Það er mikilvægt að fara varlega í framkvæmdum við Alþingisreitinn. Tillagan að kalla Guðjón Samúelsson að borðinu er athyglisverð, en ég er ekki sannfærður um að þetta sé heppilegasti kosturinn. Það var mikið unnið að því í tillögunum 2007 að láta svæðið passa saman. Ég er ekki alveg viss um að þetta falli vel að húsunum sem eru þarna og trufli jafnvel ásýnd Alþingishússins."

Sturla er þó ekki mótfallinn því að horfa til fortíðar þegar kemur að því að byggja.

„Það er allt í lagi að draga upp gamlar hugmyndir ef þær passa inn á svæðið. Alþingisreiturinn er þess eðlis að það er mjög erfitt. Þess vegna þarf að skoða mjög vel að þinghúsið falli ekki í skuggann af þessari nýbyggingu,“ segir Sturla Böðvarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×