Innlent

Varað við stormi í dag

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Veðurstofa Íslands varar við stormi sunnantil á landinu og á Vestfjörðum í fyrstu. Gert er ráð fyrir snörpum vindhviðum við fjöll á sunnan- og vestanverðu landinu fram eftir degi. Næstu daga kólnar enn frekar og má búast við talsverðu frosti eftir helgi.

Búist er við austan og norðaustan 15-23 metrum á sekúndu, hvassast norðvestantil á landinu og allra syðst. Víða hvassir vindstrengir við fjöll. Þurrt að mestu vestanlands en annars dálítil él, einkum suðaustan- og austantil. Dregur smám saman úr vindi, 8-15 metrar á sekúndu síðdegis og úrkomuminna. Hiti um frostmark. Norðaustan 5-13 á morgun. Bjart að mestu vestanalnds, en dálítil él um landið austanvert. Frost 0 til 6 stig, en sums staðar frostlaug við sjávarsíðuna, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.

Þá er hálka eða hálkublettir víðast hvar á landinu. Hringvegurinn er auður á Suðurlandi en sums staðar er hálka eða hálkublettir í uppsveitum. Hálkublettir eru á Hellisheiði. Flughált er í Grafningnum en svo einnig á Bláfjallavegi og Kjósaskarði. Óveður er undir Eyjafjöllum og í Öræfasveit. Hálka og óveður er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Á Ströndum er flughált norður í Gjögur. Þá er nokkur hálka á Norðurlandi eystra og hvasst. Snjóþekja og skafrenningur á Öxnadalsheiði.  Víða hálka á Austurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×