Evrópska handknattleikssambandið, EHF, hefur fengið sinn skerf af gagnrýni vegna fyrirkomulagsins á EM í Póllandi.
Það liðu aðeins 20 tímar frá leik Dana og Svía þar til Danir voru mættir í leikinn gegn Þjóðverjum í gær. Þjóðverjar fengu að hvíla sólarhring lengur og landsliðsþjálfari þeirra, Dagur Sigurðsson, fann til með Dönunum.
„Þar sem við fengum aukadaga til þess að hvíla okkur þá vorum við ferskari síðasta korterið í leiknum. Það er engin spurning að það hjálpaði okkur,“ sagði Dagur en hans lið hvíldi í þrjá daga fyrir leikinn.
„Það er erfitt að glíma við svona aðstæður. Danir gerðu fleiri mistök síðasta korterið en þeir gera venjulega. Þegar slíkt gerist er það oftar en ekki þreytu um að kenna.“

