Óli kynnti niðurstöður sínar í fyrra en þá hafði hann unnið að greiningunni í átta ár en gagnagrunnurinn var afhentur Rannsóknarnefnd samgönguslysa til varðveislu og viðbótarvinnslu í framtíðinni.
Við skoðun á gagnagrunni Óla kom í ljós að 30 bryggjuslys hafa orðið hér á landi og fórust 43 í þeim. Óli segir sjálfur að við skoðun á þessum slysum í gagnagrunninum megi lesa margvíslegan fróðleik.

Hann segir að ýmislegt megi betur fara varðandi öryggi á bryggjum landsins. „Þó ég sé ekki lengur í Umferðarráði, þá er ég þeirrar skoðunar að það sé ýmislegt sem mætti betur fara á bryggjum landsins. Þegar við vorum að skoða þetta af hálfu Umferðarráðs þá vorum við með allskonar tillögur um aukna lýsingu á bryggjum, því mörg slys verða í dimmu, eða hreinlega að nóttu til. Við vorum að tala um að það þyrfti að auka lýsingu og við lögðum til að höfnum yrði hreinlega lokað að nóttu til,“ segir Óli.