Handbolti

Stelpurnar stungu af í seinni hálfleik | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnheiður var markahæst í íslenska liðinu með níu mörk.
Ragnheiður var markahæst í íslenska liðinu með níu mörk. vísir/ernir
Ísland fer vel af stað í undankeppni HM U-20 ára í handbolta kvenna en stelpurnar unnu öruggan sigur á Hvíta-Rússlandi, 32-21, í íþróttahúsinu Strandgötu í kvöld.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Strandgötunni og tók meðfylgjandi myndir.

Fyrri hálfleikur var jafn og staðan að honum loknum var 11-10, Íslandi í vil. Íslensku stelpurnar mættu svo ákveðnar til leiks í seinni hálfleik og hreinlega rúlluðu yfir þær hvít-rússnesku.

Á endanum munaði 11 mörkum á liðunum en Ísland vann seinni hálfleikinn 21-11.

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst í íslenska liðinu í kvöld með níu mörk en Thea Imani Sturludóttir og Elena Birgisdóttir komu næstar með fimm mörk hvor.

Ísland mætir Ungverjalandi í öðrum leik sínum klukkan 14:00 á morgun og lýkur svo leik gegn Austurríki klukkan 11:00 á sunnudaginn. Tvö efstu liðin í riðlinum komast í lokakeppnina í Rússlandi í sumar.

Mörk Íslands:

Ragnheiður Júlíusdóttir 9, Thea Imani Sturludóttir 5, Elena Elísabet Birgisdóttir 5, Hulda Dagsdóttir 4, Díana Dögg Magnúsdóttir 4, Birta Fönn Sveinsdóttir 2, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 1, Þórhildur Braga Þórðardóttir 1, Sólveig Kristjánsdóttir 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×