Körfubolti

Sigurganga San Antonio á heimavelli heldur áfram | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kawhi Leonard átti góðan leik fyrir San Antonio í sigrinum á Clippers.
Kawhi Leonard átti góðan leik fyrir San Antonio í sigrinum á Clippers. vísir/getty
Sex leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

San Antonio Spurs vann sinn 33. heimaleik í röð þegar liðið lagði Los Angeles Clippers að velli, 108-87.

San Antonio hefur unnið alla heimaleiki sína í vetur og nálgast óðfluga met Chicago Bulls frá tímabilinu 1995-96 yfir flesta heimasigra í röð í upphafi tímabils (37).

Varamenn San Antonio voru drjúgir í nótt og skiluðu alls 51 stigi, gegn aðeins 20 hjá Clippers.

Kawhi Leonard var stigahæstur í liði San Antonio með 20 stig en LaMarcus Aldrigde kom næstur með 17 stig. Chris Paul skoraði mest fyrir Clippers, eða 22 stig.

Toronto Raptors, næstefsta liðið í Austurdeildinni, átti ekki í miklum vandræðum með Milwaukee Bucks á útivelli í nótt. Lokatölur 89-107, Toronto í vil.

DeMar DeRozan, stigahæsti leikmaður Toronto á tímabilinu, lék ekki með í nótt en það breytti engu. Kyle Lowry fór fyrir Toronto-liðinu með 25 stigum og 11 stoðsendingum og Norman Powell skilaði 17 stigum.

Paul George skoraði 25 stig fyrir Indiana Pacers sem bar sigurorð af Boston Celtics á heimavelli, 103-98.

Indiana er í 7. sæti Austurdeildarinnar en liðið á góða möguleika á að komast í úrslitakeppnina þar sem 10 af síðustu 15 leikjum liðsins í deildarkeppninni eru á heimavelli.

Isiah Thomas skoraði 21 stig og gaf átta stoðsendingar fyrir Boston sem er í 3. sæti Austurdeildarinnar.

Úrslitin í nótt:

San Antonio 108-87 LA Clippers

Milwaukee 89-107 Toronto

Indiana 103-98 Boston

Orlando 116-110 Denver

Brooklyn 131-114 Philadelphia

LA Lakers 98-106 Sacramento

Tim Duncan heldur áfram að klífa upp listann yfir stigahæstu leikmenn NBA frá upphafi Flottustu tilþrif næturinnar
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×