Handbolti

Þorgerður Anna á heimleið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Handboltakonan Þorgerður Anna Atladóttir er að öllum líkindum á heimleið eftir þriggja ára dvöl í atvinnumennsku. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Akraborginni í gær.

Þorgerður, sem leikur með þýska stórliðinu Leipzig, hefur verið meira og minna frá keppni vegna alvarlegra meiðsla undanfarin ár.

Þorgerður meiddist fyrst á öxl og sleit svo krossband í hné í mars á síðasta ári. Þegar hún var svo komin á ferðina á ný í kringum áramótin greindist hún með brjósklos í baki.

Sjá einnig: Var erfitt að vakna á morgnana

Samningur Þorgerðar við Leipzig rennur út í sumar og í færslu á bloggsíðu sinni í fyrradag gaf hún það í skyn að hún væri á heimleið.

Hjörtur Hjartarson, stjórnandi Akraborgarinnar, spurði Þorgerði nánar út í þetta í Akraborginni í gær.

„Endurhæfingin hefur gengið ágætlega en ég þarf bara að passa mig að gera ekki of mikið né of lítið. Ég þarf að halda mínu striki og vera þolinmóð,“ sagði Þorgerður.

„Samningurinn minn er að renna út og ég er búin að vera með það í huganum hvað ég eigi að gera. Og þar sem ég hef gengið í gegnum ýmislegt undanfarin þrjú ár er það kannski ekki það heimskulegasta í stöðunni að koma aftur heim, komast í sitt umhverfi og láta sér líða vel og finna gleðina aftur.

„Þótt ég segi þér þetta með trega held ég að þetta sé það besta í stöðunni,“ sagði Þorgerður við Hjört.

Sjá einnig: Þorgerður Anna: Var á erfiðum stað andlega

Þrátt fyrir að atvinnumannadraumurinn sé líklega kominn á ís segir Þorgerður að hún sé ekki hætt í handbolta.

„Alls ekki, ég er það þrjósk. En ég get sagt sjálfri mér það að atvinnumannaferilinn er allavega kominn í pásu. En þetta er kannski möguleiki með minna álagi og færri æfingum og ég ætla að sjálfsögðu að gefa þessu séns,“ sagði Þorgerður sem lék með Stjörnunni og Val hér heima áður en hún fór til Flint Tönsberg í Noregi 2013.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×