Körfubolti

Saga NBA-leikmanns á leið á hvíta tjaldið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wahlberg ætlar að framleiða mynd um líf Butlers.
Wahlberg ætlar að framleiða mynd um líf Butlers. vísir/getty
Stórleikarinn Mark Wahlberg er með kvikmynd um leikmann í NBA-deildinni í körfubolta á teikniborðinu.

Leikmaðurinn sem um ræðir heitir Caron Butler og leikur með Sacramento Kings. Butler er langt frá því að vera stærsta nafnið í bransanum en saga hans er áhugaverð.

Butler, sem er nýorðinn 36 ára, gaf út ævisögu sína í fyrra, Tuff Juice: My Journey from the Streets to the NBA, og hún vakti athygli Wahlberg.

Í bókinni segir Butler frá erfiðum uppvexti í borginni Racine í Wisconsin. Ellefu ára gamall var Butler farinn að selja eiturlyf og hann var handtekinn 15 sinnum áður en varð 15 ára.

Butler náði þó að koma lífi sínu á réttan kjöl, sló í gegn með Connecticut háskólanum og var svo valinn af Miami Heat í nýliðavalinu í NBA árið 2002.

Butler hefur komið víða við á ferli sínum í NBA en lengst af lék hann með Washington Wizards (2005-10). Hann varð NBA-meistari með Dallas Mavericks 2011 og var tvívegis valinn til að spila í Stjörnuleiknum.

„Ég vildi segja mína sögu því ég er lifandi dæmi þess að það er hægt að yfirstíga erfiðleika og öðlast nýtt og betra líf. Bókin fékk mikla athygli og þegar maður á borð við Mark Wahlberg segir að sagan þín gæti verið á leið á hvíta tjaldið leggurðu við hlustir,“ sagði Butler í yfirlýsingu.

Ekki liggur fyrir hver mun leika Butler í myndinni sem Wahlberg ætlar að framleiða. Leikarinn góðkunni er mikill körfuboltaáhugamaður en hann kynntist Butler þegar sá síðarnefndi lék með Los Angeles Clippers á árunum 2011-13.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×