Innlent

Fjöldahjálparstöð opnuð á Patreksfirði vegna ofanflóðahættu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Svona var umhorft á Patreksfirði í dag. Möguleiki er á að krapaflóð falli í bænum.
Svona var umhorft á Patreksfirði í dag. Möguleiki er á að krapaflóð falli í bænum. mynd/helga gísladóttir
Hættustigi hefur verið lýst yfir á Patreksfirði vegna ofanflóða. Talið er að vatn hafi safnast fyrir í snjónum í Geirseyrargili, fyrir ofan byggðina í bænum, og að krapi gæti hlaupið fram. Af þeim sökum hefur verið ákveðið að rýma hús í bænum.

„Þetta eru svæði tíu, ellefu og tólf sem hafa verið rýmd,“ segir Helga Gísladóttir formaður Rauða krossins á Patreksfirði. Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð í hóteli bæjarins en á níunda tímanum voru 23 íbúar komnir í hana. „Einhverjir fóru til vina og ættingja og verða þar í nótt.“

Helga segir að hún viti einnig af fjórum fjölskyldum á Bíldudal sem hafa yfirgefið hús sín vegna ofanflóðahættu. Þau gerðu það hins vegar sjálf en ekki í samráði við almannavarnir. Tíu metra breitt krapaflóð féll í Bíldudal í dag og laskaði hús í bænum. Húsið er í eigu bæjarfélagsins en það var keypt upp af sveitarfélaginu þegar varnargarður var reistur þar árið 2009.

„Veðrið á hér í dag hefur ekki verið ómögulegt en það er alltaf betra að hafa varann á,“ segir Helga. Fylgst verður náðið með stöðunni í nótt og á morgun.

Mikil hætta á ofanflóðum er á norðanverðum Vestfjörðum en á utanverðum Tröllaskaga og Austfjörðum er talsverð hætta. Á vefsíðu Veðurstofunnar kemur fram að Norðurland virðist að mestu leiti sleppa við úrkomu í veðrinu sem nú gengur yfir landið en mikil hlýindi og hvassviðri gætu skapað krapaflóða- og jafnvel skriðuhættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×