Innlent

Mjög slæmt veður í dag og á morgun

Bjarki Ármannsson skrifar
Spáð er mjög slæmu veðri um allt land í dag og á morgun.
Spáð er mjög slæmu veðri um allt land í dag og á morgun. Vísir/Vilhelm
Spáð er mjög slæmu veðri um allt land í dag og á morgun. Veðurstofa biður vegfarendur að fylgjast vel með veðurspám og ástandi vega þessa helgi.

Í dag hreyfist kröpp og djúp lægð skammt vestur af landinu til norðurs. Lægðinni fylgir suðvestanstormur eða -rok með éljagangi og mjög takmörkuðu skyggni sunnan og vestanlands. Dregur talsvert úr veðurhæð sunnan til síðdegis og fyrir norðan með kvöldinu.

Á morgun kemur önnur djúp lægð sunnan úr hafi og fer að hvessa töluvert af suðri. Lægðinni fylgja hlýindi og rigning og má reikna með mikilli leysingu. Því geta ár og vatnsföll vaxið mjög þannig að flæði yfir bakka og varnargarða.

Síðdegis á morgun er svo spáð sunnanstormi eða -roki, jafn vel ofsaveðri norðvestanlands um kvöldið.

Vegir eru víðast auðir en hálka og hálkublettir á heiðum í flestum landshlutum. Flughált er á Holtavörðuheiði að sögn Vegagerðarinnar, og Fróðárheiði er ófær. Á Vestfjörðum er Kleifaheiði þungfær og þæfingsfærð bæði á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði.

Veðurstofa brýnir einnig fyrir fólki að hreinsa vel frá niðurföllum og útidyrum á jarðhæðum og í kjöllurum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×