Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Akureyri - ÍBV 26-27 | Ótrúleg endurkoma Eyjamanna

Stefán Guðnason í KA-húsinu skrifar
Theodór Sigurbjörnsson var markahæstur Eyjamanna með átta mörk.
Theodór Sigurbjörnsson var markahæstur Eyjamanna með átta mörk. vísir/stefán
ÍBV vann magnaðan sigur á Akureyri fyrir norðan í Olís-deild karla í handbolta í dag, 27-26.  Eftir mikla baráttu í byrjun leiks þar sem liðin skiptust á að hafa eins marka forskot náðu heimamenn undirtökunum og sigldu fram úr.

Munaði þar miklu frábær innkoma Hreiðars í mark heimamanna sem og óheyrleg barátta línubuffsins úr Aðaldal, Halldórs Loga. Hornamenn Akureyrar léku við hvern sinn fingur og fengu sæg af góðum færum sem þeir nýttu vel.

Hjá gestunum var mikil barátta en óheppni sem og klaufagangur gerðu það að verkum að Akureyringar höfðu fjögurra marka forystu í hálfleik, 14-10.  Síðari hálfleikur byrjaði með látum. Kári Kristján setti tóninn og fiskaði víti sem Theodór skoraði úr.

Kristján Orri skoraði þá enn eitt mark Akureyrar úr horninu og í kjölfarið skoraði Kári af línunni úr hraðri sókn.  Eftir fjörugar fyrstu mínútur í síðari hálfleik virtust Akureyringar ætla að ná aftur undirtökunum í leiknum og sigla þessum sigri heim.

Eitthvað hafði þó breyst hjá gestunum og leikgleðin og baráttan skein úr andlitinu á þeim. Þrátt fyrir að Akureyringar hafi náð mest fimm marka forystu, 19-14 þegar 20 mínútur voru eftir var eitthvað í loftinu sem sagði að þetta myndi ekki ganga út leikinn.

Svo virðist sem leikmenn Akureyrar hafi skynjað það líka þar sem þegar 19 mínútur voru eftir af leiknum hættu þeir að sækja færin sín, köstuðu boltanum ítrekað í hendurnar á gestunum sem þökkuðu pent fyrir sig og jöfnuðu leikinn á aðeins fjórum mínútum.

Þeir létu sér það ekki nægja og hreinlega rúlluðu yfir ráðalausa Akureyringa á næstu 12 mínútum. Á 12 mínútum breyttu þeir stöðunni úr 19-14 í 20-25.

Vörn Eyjamanna stal hverjum boltanum á fætur öðrum og Stephen Nielsen kom ógnarsterkur inn á þessum kafla.

Þrátt fyrir að heimamenn virtust vakna síðustu mínúturnar og laga stöðuna var það of seint. Eins marks sigur gestanna staðreynd.

Eyjamenn sýndu á þessum kafla í síðari hálfleik að ekkert lið má vanmeta þá sama hvernig staðan er. Hungrið og baráttan sem og trú á verkefnið var til fyrirmyndar í dag. Heimamenn aftur á móti spiluðu gríðarlega vel í 40 mínútur í dag og geta tekið það út úr þessum leik.

Þessi korters kafli í síðari hálfleik kostaði þá hins vegar gríðarlega og þeir hljóta að naga sig all verulega í handabökin að hafa kastað þessum leik frá sér.

Theodór: Langt síðan ég hef þurft að fara út af til að pústa

„Þetta var bara frábær sigur. Mikill baráttusigur. Við vorum í miklum vandræðum framan af leik bæði í sókn og vörn en þegar það kviknaði á 5-1 vörninni okkar var þetta aldrei spurning. Við vinnum boltann aftur og aftur og skorum nánast öll okkar mörk úr hraðaupphlaupum á þessum kafla.Breytum stöðunni úr 19-14 í 20-25, það segir sitt.  

Það er samt langt síðan ég hef þurft að fá mér sæti á bekknum til að aðeins að ná andanum en þetta voru bara svo margir sprettir hjá mér. Samt er ég alveg í góðu formi”

Eyjamenn virtust ekki getað stigið feilspor á þessum kafla sama hvað. Meðal annars skoraði línutröllið Kári Kristján ákaflega fallegt mark utan af velli með kringluskoti. Hávær smellur heyrðist í húsinu þegar skotið kom en óljóst hvaðan það hljóð kom.

„Þegar Kári skoraði þetta mark var ljóst hvernig færi. Það er ekki hægt að tapa leik ef drengurinn skorar svona mark. Algjört match winner mark.”

ÍBV nær með sigrinum að koma sér upp í 3. sætið með jafn mörg stig og Afturelding. Næsti leikur Eyjamanna er á heimavelli gegn Víkingum en lokaleikurinn er gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ. „Við erum bara brattir fyrir framhaldið. Við sýndum það í dag að við erum drulluflottir þegar við náum upp okkar vörn og það er í raun ekkert lið sem við hræðumst í augnablikinu. Við förum í þessa tvo leiki með það markmið að tryggja okkur þriðja sætið fyrir úrslitakeppnina og ef við spilum eins og í dag sé ég ekkert því til fyrirstöðu að það takist”

 

Heiðar Þór: Urðum stressaðir.

Þrátt fyrir að Akureyringar hafi spilað frábæran sóknarleik fyrstu 40 mínúturnar í leiknum köstuðu þeir leiknum frá sér á korterskafla eins og áður segir. Heiðar Þór Aðalsteinsson hafði fá svör þegar hann var inntur eftir því hvað hefði eiginlega gerst á 41. mínútu leiksins.

„Við erum frábærir hérna í 40 mínútur, síðan síðustu 20 mínúturnar hættum við að gera það sem lagt var upp með. Hættum að sækja inn í svæðin og fórum að taka sendingar sem við áttum ekki að taka. Þeir refsuðu okkur fyrir hver mistök og svo fór sem fór. Því miður fundum við engar lausnir á þessum kafla og grófum okkur alltaf lengra og lengra ofan í holuna sem við vorum í. Þú vinnur ekki leik þegar þú tapar boltanum tíu sinnum á jafn mörgum mínútum. Það er bara ekki hægt”

Sóknarleikur Akureyrar var framan af með þeim betri sem þeir hafa sýnt í vetur og fjöldinn allur af dauðafærum komu upp úr uppstilltum sóknarleik. Heiðar fékk hvert færið á fætur öðru og nýtti þau vel en hann skoraði alls sex mörk í fyrri hálfleik. Hins vegar hættu færin að koma í síðari hálfleik og endaði Heiðar með alls 8 mörk, þar af þrjú úr vítum.

„Við lögðum upp með að opna hornin gegn þessari vörn þeirra, það var að ganga vel og erfitt að útskýra hvað veldur því að við hættum því. Þeir ná að loka á mig en fyrir vikið opnast fyrir Krissa hinum meginn. Stephen kemur síðan gríðarlega sterkur inn og þau skot sem hann er að verja nagar af okkur sjálfstraustið sem verður síðan til þess að við hreinlega missum hausinn og þeir keyra yfir okkur.”

Akureyri á nú tvo leiki eftir í deildinni gegn Aftureldingu heima og Fram á útivelli. Með sigri í báðum leikjunum geta þeir hýft sig aðeins upp töfluna fyrir úrslitakeppnina en þeir sitja sem stendur í 8. sæti deildarinnar.

„Við stefnum bara á að spila í næstu tveimur leikjum eins og við gerðum framan af í dag. Þá erum við til alls líklegir, við spiluðum flott í 40 mínútur í dag og við þurfum bara að framkalla þetta hjá okkur í næstu tveimur leikjum og halda út. Þá er aldrei að vita hvað gerist.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×