Innlent

Þokkalegasta ferðaveður í dag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Af Holtavörðuheiði
Af Holtavörðuheiði Vísir/GVA
„Það er hvergi vont veður og ferðaveðrið í dag að ætti að vera þokkalegt. Það er ennþá bara mars þannig að þetta er í betra lagi miðað við oft áður,“ segir vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands aðspurður um ferðaveðrið í dag. Viðbúið er að margir leggi land undir fót og snúi heim á leið í dag eftir páskafrí.

Nokkuð víða fyrir norðan og austan til á landinu má búast við viðvarandi éljagagi sem mun þó minnka eftir því sem líður á daginn. Þá hefur aðeins snjóað syðst á suðurlandi í morgun og viðbúið er að það nái uppundur Hellisheiðina að sunnanverðu.

Veðurspá

Norðaustlæg átt, 8-13 m/s og víða dálítil él, en bjart með köflum V-til. Austlægari og snjómugga SV-til á morgun, en annars smá él á víð og dreif. Hiti 0 til 5 stig S-til að deginum, en annars kringum frostmark.

Færð og aðstæður á vegum

Vegir eru að heita má auðir um allt sunnanvert landið.

Á Vesturlandi eru vegir greiðfærir á láglendi en hálkublettir á sumum fjallvegum.

Það er hálka, hálkublettir eða snjóþekja víða á Vestfjörðum. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og á Þröskuldum. Ófært er norður í Árneshrepp en mokstur er hafinn.

Á Norðurlandi vestra er nánast autt en þó er snjóþekja á Þverárfjalli og hálka á Siglufjarðarvegi.

Það er hálka á Öxnadalsheiði en við Eyjafjörð og þar fyrir austan er víða vetrarfærð, hálka eða snjóþekja og snjókoma.

Ófært er yfir Hólasand og um Dettifossveg en mokstur er hafinn. Þæfingsfærð er á Mývatnsöræfum en mokstur stendur yfir.

Snjóþekja og skafrenningur er á Möðrudalsöræfum og á Vopnafjarðarheiði.

Hálka eða snjóþekja er víða á Austurlandi og einhver éljagangur. Ófært er um Breiðdalsheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×