Handbolti

Lauflétt hjá Veszprém

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron mundar fallbyssuna.
Aron mundar fallbyssuna. vísir/epa
Aron Pálmarsson og félagar í ungverska meistaraliðinu Veszprém áttu greiða leið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Í dag fór fram seinni leikur Veszprém og Motor Zaporozhye í 12-liða úrslitum og unnu Ungverjarnir öruggan sigur, 41-28.

Aron skoraði sex mörk úr átta skotum en íslenski landsliðsmaðurinn var næstmarkahæstur í liði Veszprém á eftir sænska línumanninum Andreas Nilsson sem gerði sjö mörk.

Veszprém vann fyrri leikinn í Úkraínu 24-29 og einvígið því samanlagt 70-52.

Það kemur svo í ljós í kvöld hvort Veszprém mætir Vardar Skopje eða Wisla Plock í 8-liða úrslitunum. Liðin skildu jöfn, 30-30, í fyrri leiknum í Póllandi.

Fyrr í dag tryggði pólska meistaraliðið Vive Targi Kielce sér sæti í 8-liða úrslitunum með þriggja marka sigri, 33-30, á Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi í seinni leik liðanna. Kielce vann fyrri leikinn 28-32 og einvígið samanlagt 65-58.

Kielce mætir annað hvort Flensburg eða Montpellier í 8-liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×