Körfubolti

Hrafn: Eigum að skammast okkar

Ingvi Þór Sæmundsson í Ásgarði skrifar
Hrafn var ekki sáttur með leik sinna manna í kvöld.
Hrafn var ekki sáttur með leik sinna manna í kvöld. vísir/þórdís
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var ósáttur við frammistöðu sinna manna í tapinu fyrir Njarðvík í kvöld.

"Það eru bara smáatriði sem skilja á milli undir lokin en ég held að það sé bara hollast fyrir okkur að líta á leikinn í heild sinni," sagði Hrafn eftir leik.

"Þeir komu bara grimmari út en við og það er óásættanlegt, ólíðandi og við eigum að skammast okkar fyrir hvernig við spiluðum þennan leik.

"Við skulum átta okkur á því að ef Addú [Arnþór Freyr Guðmundsson] hefði ekki sett niður stór skot í fyrri hálfleik hefði staðan verið enn verri. Sum skotanna sem við settum ofan í til að halda okkur inni í leiknum voru ekki endilega í sóknarflæðinu."

Stjörnumenn hafa tapað báðum heimaleikjum sínum í einvíginu og það er Hrafn óánægður með.

"Við þurfum að laga nákvæmlega sömu hlutina og við þurftum fyrir leik tvö. Það finnst mér það grátlegasta.

"Við unnum fyrir heimaleikjarétti í allan vetur, töpuðum bara tveimur heimaleikjum á allt tímabilið, til þess eins að tapa fyrstu tveimur leikjunum. Það er algjör hneisa," sagði Hrafn en Stjörnumenn þurfa nú að endurtaka leikinn frá því í fyrra og vinna fjórða leikinn gegn Njarðvík til að tryggja sér oddaleik í einvíginu.

Umfjöllun og ítarlegri viðtöl um leikinn má finna hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×