Handbolti

Kiel vann upp munninn og mætir Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Niklas Landin var frábær í kvöld.
Niklas Landin var frábær í kvöld. Vísir/Getty
Kiel tryggði sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta eftir sigur á ungverska liðinu Pick Szeged, 36-29.

Þar með náði Kiel að vinna upp fjögurra marka tap í fyrri leiknum sem fór fram í Ungverjalandi á sunnudag. Kiel mætir næst Evrópumeisturum Barcelona í 8-liða úrslitunum en Guðjón Valur Sigurðsson, sem var áður á mála hjá Kiel, leikur með Börsungum.

Leikurinn var æsispennandi en það var ekki fyrr en á lokamínútum leiksins að Kiel náði að sigla fram úr. Var það ekki síst markverðinum Niklas Landin að þakka en hann varði þrjú vítaskot á síðustu mínútum leiksins.

Eftir jafnan fyrri hálfleik náði Kiel fjögurra marka forystu, 18-14, áður en gengið var til búningsklefa. Þar með var staðan í rimmunni jöfn.

Í síðari hálfleik var Kiel með undirtökin en ungverska liðið aldrei langt undan. Kiel náði hins vegar að spila betri vörn en í leik liðanna á sunnudag og munaði einnig gríðarlega miklu um frammistöðu Landin í markinu, sem var mun betri en í fyrri leiknum.

Marko Vujin átti stórleik fyrir Kiel og skoraði níu mörk. Niclas Ekberg kom næstur með sjö mörk en Christian Dissinger, sem hefur verið frá vegna meiðsla, kom sterkur inn af bekknum og skoraði fimm mörk.

Dean Bombac var í aðalhlutverki hjá Pick Szeged og skoraði sjö mörk, rétt eins og gamla kempan Jonas Källman en hann skoraði reyndar fyrstu fjögur mörk Ungverjanna í leiknum.

Þetta er fyrsta rimman sem klárast í 16-liða úrslitunum en keppni í Meistaradeild Evrópu heldur áfram nú um helgina.

Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson dæmdu leikinn og komust vel frá sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×