Innlent

Gjaldkeri Samfylkingarinnar segir af sér

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Vilhjálmur Þorsteinsson
Vilhjálmur Þorsteinsson vísir/arnþór
Vilhjálmur Þorsteinsson hefur sagt af sér sem gjaldkeri Samfylkingarinnar. Þetta kemur fram í pistli sem hann birti í bloggfærslu nú fyrir skemmstu.

Í kjölfar umfjöllunar undanfarna daga um eigur Íslendinga í erlendum félögum og mögulegum skattaskjólum var mál Vilhjálms rifjað upp en hann á félag sem skráð er í Lúxemborg.

„Ég stofnaði hugbúnaðarfyrirtæki árið 1983, þá 17 ára gamall, ásamt félaga mínum. Félagið var svo selt á 10. áratug síðustu aldar til erlends hugbúnaðarfyrirtækis fyrir ágætis upphæð í sterlingspundum. Síðan þá hef ég verið vel settur fjárhagslega. Eignir mínar hafa að mestu leyti verið ávaxtaðar innan félags sem ég á í Lúxemborg – eins og er fullkomlega heimilt skv. „fjórfrelsi“ evrópska efnahagssvæðisins,“ segir í færslunni.

„Ég er svo heppinn að vera vel stæður, og tilheyri eflaust hinu fræga 1%. En ég er líka jafnaðarmaður að lífsskoðun, styð öflugt velferðarkerfi og samhjálp og að þeir sem mest eiga greiði sanngjarnan, og þá meina ég ríflegan, skerf til samfélagsins,“ skrifar Vihjálmur.

Sjá einnig: Gjaldkeri Samfylkingarinnar á félag í Lúxemborg

Vilhjálmur segir að hann „[borgi] auðvitað alla skatta“ og skyldur sem sér beri. Þar nefnir hann til sögunnar tekjuskatt og að hann hafi greitt auðlegðarskatt og verið honum hlynntur. Það sé ekki vegna skattahagræðis sem félagið sé skráð í Lúxemborg heldur vegna krónunnar, gjaldeyrishafta og óstöðugleika íslenska efnahagskerfisins. Persónulegar skattgreiðslur hans væru þær sömu og ef félagið væri íslenskt.

„En þrátt fyrir allt sem að ofan er sagt, má augljóst vera að svona flókið eignarhalds- og fjárfestingadæmi hjá gjaldkera Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands er lítt til þess fallið að fókusera umræðuna sem nú stendur yfir um aflandsfélög og skattaskjól á það sem máli skiptir: ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann í landinu,“ segir í niðurlagi pistilsins. Af þeirri ástæðu segir Vilhjálmur embætti sínu lausu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×