Körfubolti

Níundi oddaleikur Justins Shouse á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse.
Justin Shouse. Vísir/Vilhelm
Stjarnan tekur á móti Njarðvík í kvöld í hreinum úrslitaleik um sæti í undanúrslitum Domino’s-deildar karla í körfubolta en KR, Tindastóll og Haukar eru þegar komin áfram.

Þetta er annað árið í röð sem Stjarnan og Njarðvík mætast í oddaleik í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar en Njarðvík vann 92-73 sigur í Ljónagryfjunni fyrir ári. Að þessu sinni eru Stjörnumenn hins vegar á heimavelli en það má deila um hversu gott það er enda hafa útiliðin unnið fyrstu fjóra leikina.

Stjörnumenn og þá sérstaklega Justin Shouse þekkja það vel að spila oddaleik en leikurinn í kvöld verður níundi oddaleikur Justins í úrslitakeppninni. Justin hefur þrisvar fagnað sigri en fimm sinnum verið í tapliði.Justin er með 17,8 stig og 7,4 stoðsendingar að meðaltali í þessum átta oddaleikjum sínum.

Stjörnuliðið er að fara að spila oddaleik í átta liða úrslitunum í sjöunda sinn á átta árum en liðið hefur unnið 3 af síðustu 4 oddaleikjum sínum.

Njarðvíkingar kunna það líka vel að spila oddaleiki en þetta verður fimmti oddaleikur Njarðvíkinga í síðustu fjórum úrslitakeppnum. Þrír af þessum fjórum oddaleikjum hafa Njarðvíkingar tapað.

Leikur Stjörnunnar og Njarðvíkur verður sýndur beint á Stöð 2 Sport en á undan verður Körfuboltakvöld Kjartans Atla Kjartanssonar í beinni frá Ásgarði í Garðbæ. Körfuboltakvöld hefst klukkan 18.45 en leikurinn klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×