Innlent

Hlátur á þingi þegar Bjarni sagði Árna Pál persónugera umræðuna

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson á Alþingi í dag.
Bjarni Benediktsson á Alþingi í dag. Vísir/Pjetur
 „Við erum að upplifa fordæmalausa stöðu í íslenskum stjórnmálum. Og kastljós umheimsins beinist að Íslandi með öðrum hætti en dæmi eru um í þeirri sögu. Sérstaða Íslands er að við höfum forystumenn í stjórnmálum sem hafa átt viðskipti í skattaskjólum,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, við upphaf þingfundar í dag.

Þingfundurinn hófst klukkan ellefu og var tvöfaldur óundirbúinn fyrirspurnartími á dagskrá. Fyrir svörum standa fjármála- og efnahagsráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra. Vænta má að skattaskjólsumræða síðustu daga og boðun nýrrar ríkisstjórnar verði aðalumræðuefni þingfundar.

„Það er þung ábyrgð sem hvílir á forystumönnum ríkisstjórnar við þessar aðstæður,“ sagði Árni og þótti ljóst að ekki hefðu forystumenn staðið undir þeirri ábyrgð.

„Hvernig getur hann fundið það út að hann sé rétti maðurinn í að leiða vinnuna í að endurreisa heiður Íslands á alþjóðavettvangi?“ spurði Árni og beindi spurningu sinni til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Fullyrti að Árni Páll hugsi aðeins um eigin hagsmuni

Bjarni Benediktsson sakaði Árna Pál Árnason í kjölfarið um að vera einungis að bjarga eigin skinni með kröfu sinni og stjórnarandstöðunnar um kosningar strax. Upphófust þá frammíköll í Alþingissal. 

Bjarni sagði Árna Pál ekki gera greinarmun á þeim sem stunda heiðarleg alþjóðleg viðskipti og þá sem geyma fé sitt í skattaskjólum. Í kjölfarið gerði hann að umtalsefni sínu fyrrverandi störf Árna Páls.

„Hvernig var það þegar hann var bankaráðsmaður í Búnaðarbankanum og stjórn bankans ákvað að opna útibú í Lúxemborg?“ spurði Bjarni og sagði Árna Pál þannig hafa lagt grunn að ýmsum gagnrýniverðum viðskiptum bankans í Lúxemborg. 

Árni Páll sagði í kjölfarið skýrt hvernig fjármálaráðherra kysi að bregðast við aðstæðum og lýsti því sem hann væri að atast áfram eins og naut í flagi. 

„Nafn mitt er ekki í Panama-skjölunum. Ég átti ekki fyrirtæki á Seychelles-eyjum,“ sagði Árni Páll í kjölfarið. 

„Hvers vegna er hann að ata alla aðra auri í staðinn fyrir að hreinsa orðstír Íslands?“ spurði Árni. 

Bjarni gagnrýndi í svari sínu Árna Pál fyrir að persónugera umræðuna. Þegar hann lét þessi orð fallast heyrðist hlátur úr þingsalnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×