Innlent

Málefni tveggja borgarfulltrúa í Reykjavík eru til skoðunar

Þórdís Valsdóttir skrifar
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks Mynd/aðsend
Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar telur, í ljósi frétta af aflandsfélögum í eigu tveggja borgarfulltrúa, brýnt að þar til bærir aðilar kanni málin til hlítar. Nefndin samþykkti á fundi í gær að taka skyldi til skoðunar hagsmunaskráningu borgarfulltrúa.

Kannað verður hvort Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson hafi farið á svig við gildandi lög og reglur um skyldur og hæfi borgarfulltrúa, hvort reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar hafi verið fylgt og hvort siðareglur borgarfulltrúa hafi verið brotnar.

Í Panama-skjölunum kom fram að Sveinbjörg Birna, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, tengist tveimur aflandsfélögum sem skráð eru á Tortóla og í Panama. Þar að auki kom fram að Júlíus Vífill hefði ekki skráð aðkomu sína og eignarhald í félagi sem skráð er í Panama.

Sveinbjörg Birna sagði í yfirlýsingu til fjölmiðla í gær, vegna umfjöllunar Kastljóss og Reykjavík Media um tengsl hennar við Panama-skjölin, að hún muni óska eftir tímabundnu leyfi frá störfum sínum sem borgarfulltrúi ef yfirferð um hagsmunaskráningu borgarfulltrúa verði ekki lokið þegar hún snýr aftur úr fæðingarorlofi í júní næstkomandi.

Júlíus Vífill sagði hins vegar af sér sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks við upphaf borgarstjórnarfundar í gær. Júlíus Vífill hefur setið í borgarstjórn í fjórtán ár. Í Panamaskjölunum kom fram að hann hefði sett upp félagið Silwood Foundation í Panama árið 2014. Að hans sögn er um lífeyrissjóð að ræða en ekki félag sem átt gæti í viðskiptum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. apríl. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×